Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
23. maí. 2008 07:30

Fleiri möguleikar með stúdentspróf af verknámsbrautum

Nokkur umræða hefur verið um minnkandi aðsókn að verknámi hérlendis. Til að kanna hvort grundvöllur væri fyrir þeim sögusögnum hitti blaðamaður Skessuhorns deildarstjóra verknámsbrauta við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, þá Flemming Madsen, Sigurgeir Sveinsson og Þröst Ólafsson. Félagarnir voru sammála um að nemandi sem tæki stúdentspróf af verknámsbraut hefði jafn góða eða betri möguleika í framhaldsnámi á sínu sviði en sá sem tæki bóknámsbraut. Einnig hefði hann dýrmætt iðnnám í bakhöndinni, sem yfirleitt gæfi nokkuð trygga vinnu og ágætis tekjur.

Aðspurðir vildu þeir meina að aðsókn að verknámi væri kannski ekki eins léleg og margir héldu fram. Það hefðu alltaf verið sveiflur í hópastærðum, það væri ekkert nýtt. Staðreyndin væri hins vegar sú að flestir unglingar vildu helst fara í nám í sinni heimabyggð. Að standa á eign fótum strax eftir grunnskóla væri erfitt og mjög kostnaðarsamt. Í ljósi þessa væri það dapurt þegar nemendur veldur sér námsbraut út frá hentugleika frekar en áhugasviði og getu. Það væri alls ekki jákvætt ef nemandi með áhuga á bóknámi færi í verknám eða öfugt. Kannski mætti koma í veg fyrir það með meira samstarfi milli skóla eins og þegar væri við Framhaldskóla Snæfellinga, það hefði skilað góðum árangri.

 

Sigurgeir Sveinsson er deildarstjóri í bygginga- og mannvirkjadeild. Þar er allt á fullu og gríðarleg aðsókn, eins og Sigurgeir kemst að orði. Í haust verður tekið í notkun nýtt og glæsilegt húsnæði með nýjum vélum og með því verður verkstæði skólans eitt hið fullkomnasta á landinu. „Við bjóðum orðið upp á nám fyrir aðila sem eru úti á vinnumarkaðnum. Það fer einungis fram um helgar og klára þeir nemar á tveimur árum, eins og aðrir. Gert er ráð fyrir að viðkomandi sé auk þess í 18 mánuði hjá meistara. Aðsóknin í þetta nám hefur verið gífurleg og námið er alveg fullgilt þannig að þeir sem ljúka því geta farið í meistaraskóla síðar ef vilji er fyrir því. Ákveðið hefur einnig verið að auglýsa þetta á Stór-Reykjavíkursvæðinu og það er þegar farið að skila árangri. Við vorum tveir sem kenndum við þessa deild en erum fjórir í dag og megum hafa okkur alla við. Við höfum verið í samstarfi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga um að nemendur taki bóklegu grunnfögin þar og bókleg fagfög í fjarnámi. Þeir koma svo hingað til að ljúka verknáminu. Þetta hefur gefist vel og við munum bjóða Menntaskóla Borgarfjarðar upp á sama samstarf, það er enginn vafi.“

 

Flemming Madsen segir aðsókn að rafiðnadeildinni góða, nemendafjöldi grunndeildar hafi verið tvöfaldur undanfarið miðað við síðustu ár. Námsskráin sé hins vegar svolítill fjötur um fót og lítill sveigjanleiki í boði. Flemming segir að sumum nemendum henti frekar að byrja á verklega hlutanum og taka bóklega hlutann síðar þegar meiri þroska hafi verið náð. Alltaf sé slæmt að falla því það setji allt úr skorðum. Að þessu gefnu sé kannski erfiðara fyrir suma að byrja í bóklegu heima í héraði, en samvinna sé þó sannarlega eitthvað sem vert er að skoða. Margir nemendur úr rafiðnadeild halda áfram, taka stúdentspróf og fara síðan í verkfræði. „Það er í raun ólíku saman að jafna, verkfræðingi með iðnnám og reynslu og þeim sem kemur af bóknámsbraut. Þeir sem starfað hafa við iðn sína úti í atvinnulífinu eru mikið betur undirbúnir heldur en hinir. Þeir kunna að lesa teikningar, vita hvernig hlutirnir ganga í raunveruleikanum, þekkja móralinn á kaffistofunum eins og sagt er. Það er bara allt annað að vinna teikningar eftir þessa menn heldur en hina. Þeir þekkjast alls staðar út. Mér finnst einnig gaman að því að fleiri stelpur stunda nú nám á verknámsbrautunum en við höfum áður séð í FVA.“

 

Þröstur Ólafsson er deildarstjóri málmiðnardeildar. Hann segir þá deild vera ágætlega tækjum búna miðað við þær kröfur sem gerðar eru til námsins, þótt alltaf megi á sig blómum bæta. „Að mínu mati þurfa skólarnir að fylgjast með, vera á undan atvinnulífinu og kenna það nýjasta. En tækin eru dýr og menntakerfið mjög hægvirkt kerfi. Við horfum til nýs frumvarps um framhaldsskóla og að með því fái skólarnir meira frjálsræði en er í dag og geti jafnvel boðið upp á nýjungar í náminu. Aðsóknin hjá okkur hefur verið góð og ánægjulegt að aðsókn kvenna að deildinni hefur stóraukist. Þar sem hópstærðir í verknáminu eru heldur minni en gerist í bóknámsbekkjum og vegna uppbyggingar námsins, er iðnnámið frekar í líkingu við gamla bekkjarkerfið. Það gerir okkur betur kleift að fylgjast með hverjum og einum og aðlaga námið að þörfum viðkomandi. Við erum að fara af stað með tilraun í haust, tveggja ára vélvirkjanám, í stað þriggja ára. Það er sniðið að þeim sem eru búnir með grunnbóklegt nám á öðrum brautum og verða þá eingöngu í fögum sem tengjast iðninni. “

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is