02. júní. 2008 02:02
Sláttur hófst í Deildartungu í Reykholtsdal laugardaginn 31. maí. Sprettutíð í nýliðnum mánuði var með allra besta móti og mjög víða í Borgarfirði er nú komið gott gras á tún, einkum nýræktir. Það mun vera einstakt að sláttur hefjist áður en júnímánuður gengur í garð. Ingimundur Jónsson, húskarl í Deildartungu sló fyrsta túnið þar á bæ á laugardaginn og hefur þegar pakkað uppskerunni í rúllur. Líklega er það fyrsti slátturinn á landinu, en fjölmiðlar hafa greint frá því að eyfirskir bændur hafi hafið slátt degi síðar, þ.e. 1. júní. Nú er Ingimundur í Deildartungu að slá svokallað Kársnes, sem er neðan við Deildartunguhver. Aðspurður segir hann að spretta sé uppundir jafn góð nú og hún var 16. júní í fyrra þegar hann sló fyrsta túnið.
Nú gengur á með skúrum í Borgarfirði en spáin lofar þurrki á morgun og frameftir degi á miðvikudag. Skessuhorn hefur rætt við nokkra bændur í Borgarfirði, bæði sunnan og norðan Skarðsheiðar. Almennt segja þeir sprettu mjög góða miðað við árstíma og búast margir við að hefja slátt á næstu dögum.