Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
02. júní. 2008 04:16

Vestlenskir stjórnarmenn í OR ekki sáttir við brottvikningu

Eins og fram kom í fjölmiðlum fyrir helgi var Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur vikið úr starfi forstjóra og kom hann því ekki til baka eftir frí sem hann fékk til að stýra uppbyggingu Reykjavík energy Invest hf. Á fundi í stjórn OR sl. föstudag var lagt fram samkomulag OR og Guðmundar um að hann léti af starfi forstjóra samdægurs. Um leið lauk starfs- og vinnuskyldum hans sem forstjóri REI. Samkomulagið um starfslok Guðmundar var undirritað af honum og Kjartani Magnússyni, stjórnarformanni OR. Í viðtali sem Guðmundur gaf við fjölmiðla sama dag upplýsti hann að starfslokin væru ekki að frumkvæði hans og verður því að líta þannig á að honum hafi verið vikið úr starfi. Mun uppsögnin kosta Orkuveituna tugmilljónir króna. Fulltrúar Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar í stjórn OR, þeir Gunnar Sigurðsson og Björn Bjarki Þorsteinsson, lögðu fram bókun á fundinum þar sem þeir segja að samkomulagið væri ekki að þeirra frumkvæði en lýstu ánægju með að starfslokin væru þó gerð í sátt við Guðmund Þóroddsson.

Deilur innan borgarstjórnar skaða OR

Björn Bjarki sagði í samtali við Skessuhorn að þeir Gunnar hefðu viljað koma því á framfæri að þegar til fundarins kom hafi þeir staðið frammi fyrir orðnum hlut, án þess að samráð hafi verið haft við þá áður. “Við teljum að Guðmundur Þóroddsson hafi staðið sig vel sem forstjóri Orkuveitunnar, oft á erfiðum tímum. Hann og samstarfsmenn hans gerðu marga mjög góða hluti og það er eftirsjá að honum úr þessu starfi. Okkur finnst hinsvegar vanta mikið uppá að borgarfulltrúar í Reykjavík, fulltrúar meðeigenda okkar að fyrirtækinu, slíðri sverðin og láti ekki pólitísk deilumál við stjórnun höfuðborgarinnar eyðileggja fyrir vexti og viðgangi Orkuveitu Reykjavíkur. Til þess er fyrirtækið allt of mikilvægt íbúum á starfssvæði fyrirtækisins,” sagði Björn Bjarki Þorsteinsson. Gunnar Sigurðsson tekur undir þessi orð Bjarka og bætir við: “Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína og það er ágætt að hún komi fram, að ég hefði viljað ráða Hjörleif Kvaran sem forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og Guðmund Þóroddsson sem forstjóra REI. Þá væru bæði þessi fyrirtæki í góðum höndum,” sagði Gunnar í samtali við Skessuhorn.

 

Starfsmannafélagið á sama máli

Við þetta er að bæta að fundur í Starfsmannafélagi Orkuveitu Reykjavíkur lýsti í dag undrun og vonbrigðum með þá ákvörðun stjórnar fyrirtækisins að víkja forstjóra þess úr starfi. Jafnframt átaldi fundurinn stjórnina fyrir algjöran skort á upplýsingum um gang mála og lýsti eftir skýrri stefnu í málefnum þess. “Guðmundur hefur staðið í fararbroddi í mikilli uppbyggingu undanfarinna ára og lýsir fundurinn yfir fullum stuðningi við hann. Fundurinn hvetur stjórnarmenn til þess að bera hag fyrirtækisins fyrir brjósti og nýta tækifæri til sóknar, bæði innanlands og utan,” segir í lok tilkynningar starfsmannafélagsins sem þannig tekur undir sjónarmið þeirra Gunnars Sigurðssonar og Björns Bjarka Þorsteinssonar, stjórnarmanna frá Akranesi og Borgarbyggð.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is