03. júní. 2008 10:20
 |
Önnur kría hafði tyllt sér á fuglinn í morgun. |
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag mátti sjá mynd af svani sem synti um á tjörn við bæjarmörk Ólafsvíkur. Ekki væri það í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að á höfði svansins sat kría í mestu makindum. Inni í blaðinu mátti sjá þrjár myndir af sama fugli og spjall við vegfarandann sem náði myndunum. Þar sagðist hann líklega aldrei eiga eftir að sjá slíka sjón aftur. Allar líkur eru þó á því að það myndi gerast ef hann legði leið sína á sama stað að nýju þar sem svanurinn er úr plasti og alvanalegt að kríur tylli sér á höfuð hans. Það er Ríkarð Magnússon fyrrum skipstjóri og aflakló í Ólafsvík sem hefur gefið fuglunum frelsi úr bílskúrnum hjá sér undanfarin tvö ár líkt og Skessuhorn greindi frá í þarsíðasta mánuði.
Ríkarð hló dátt þegar hann sá forsíðu Morgunblaðsins en sagði þó að Morgunblaðsmenn væru ekki þeir fyrstu til þess að láta glepjast. Ferðamenn og fleiri væru iðulega að læðast að fuglunum sem þykja óvenju spakir eðli málsins samkvæmt. Fall er þó vonandi fararheill hjá nýjum ritstjóra, Ólafi Þ. Stephensen, sem tók við ritstjórn Morgunblaðsins í gær.