04. júní. 2008 03:30
 |
Vésteinn Sveinsson og Vera Líndal. |
“Við fréttum af því að fólk á okkar aldri væri að skrifa nafn sitt á undirskriftalista gegn komu flóttamanna án þess að vita um hvað málið snýst,” segja þau Vésteinn Sveinsson og Vera Líndal en Ungir jafnaðarmenn á Akranesi og Þór, félag ungra sjálfstæðismanna á Akranesi hafa ákveðið að halda samkomu fyrir ungt fólk í félagsmiðstöðinni Þorpinu á morgun þar sem tækifæri gefst til þess að ræða málin og spyrja spurninga um komu flóttamanna til bæjarins. Félögin hafa bæði lýst yfir stuðningi sínum við ákvörðun bæjarstjórnar Akraness um móttöku flóttafólks sem búið hefur við ómannúðlegar aðstæður í Al-Waleed flóttamannabúðunum.
Þau Vésteinn og Vera áttu ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og fleirum frumkvæðið að fundinum.
“Hittingurinn er á dagskrá á fimmtudag, þann 5. júní kl. 20.00. Þar verður hægt að ræða málin og spyrja spurninga auk þess sem léttar veitingar verða í boði fyrir þá sem það vilja,” segja þau Vera og Vésteinn. “Þessi hópur mætti ekki á kynningarfundinn sem haldinn var um þessi mál. Reynsla Rauða krossins er sú að sá hluti flóttamanna sem á hvað erfiðast með aðlögun í nýju samfélagi sé krakkar á unglingsaldri. Það er ekki síst þess vegna sem er mikilvægt að unga fólkið hér viti um hvað málið snýst og taki svo á móti þessum hópi með opnum huga.”