05. júní. 2008 09:11
Röð fernra spennandi tónleika eru á verkefnaskrá Reykholtskirkju nú í byrjun júní. Fjölbreytt tónlist, klassísk verk og samtíma, flutt af þjóðþekktum listamönnum og mörgum af efnilegri tónlistarmönnum yngri kynslóðarinnar. Næstkomandi laugardag kl. 16 mun Gradualekór Langholtskirkju syngja í kirkjunni. Kórfélagar eru á aldrinum 14 - 18 ára og eru margir þeirra langt komnir í tónlistarnámi. Verkefnaval kórsins spannar verk frá barokktónlist til erfiðustu nútímaverka. Stjórnandi kórsins hefur frá upphafi verið Jón Stefánsson.
Mánudagur 9. júní kl. 20.30 munu þau Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari, Ágúst Ólafsson baritón, Eyjólfur Eyjólfsson tenór og Kór Flensborgarskólans halda tónleika. Stjórnandi er Hrafnhildur Blomsterberg.
Miðvkudagurinn 11. júní kl. 20 mun Eivör Pálsdóttir og Ragnhildur Gísladóttir ásamt Pétri Grétarssyni slagverksmanni og Kjartani Valdemarssyni píanóleikara, og jafnvel einhverjum fleirum, flytja eigin tónlist í bland við þjóðlegt efni.
Fjórðu tónleikarnir í þessari þéttu tónleikaröð verða síðan sunnudaginn 15. júní kl. 16 en þá fer hin árlega Is-Nord tónlistarhátíð fram þar sem Húsfellingar munu leika og skemmta. Húsafell er fornt höfuðból og einn frægasti og fegursti staður á landinu. Þaðan kemur óvenju margt listafólk og hefur tónlistarfólk ættarinnar að frumkvæði IsNord sett saman frábæra tónleika. Meðal flytjenda verða Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Ástríður Alda Sigurðardóttir, Margrét Þorsteinsdóttir, Páll á Húsafelli og margir fleiri.