04. júní. 2008 04:10
Skagastúlkur hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í 1. deild Íslandsmóts kvenna. Fyrsti leikur liðsins var í Eyjum á dögunum og unnu Eyjastúlkur sannfærandi sigur 7:1. Í gærkveldi komu síðan stúlkur af Reykjanesinu, í GRV, í heimsókn á Skagann. Leikurinn var hnífjafn og sigruðu Suðurnesjastúlkur 2:1.
Það var Ester Harpa Vignisdóttir fljótur framherji Skagastúlkna sem skoraði markið í Eyjum og hún skoraði líka í leiknum í gær.
Skagastúlkur héldu sig aftarlega á vellinum, leyfðu gestunum að spila boltanum á milli sín og treystu á skyndisóknir. Skoraði Ester úr einni slíkri um miðjan hálfleikinn. Rétt fyrir leikhlé slapp hinsvegar sóknarmaður GRV í gegn og jafnaði metin. Skaginn beitti sömu leikaðferð í seinni hálfleiknum, tókst að verjast lengi vel og voru gestirnir orðnir verulega pirraðir en náðu þó að setja eitt undir lokin og vinna leikinn. Í heild stóðu Skagastúlkurnar sig vel. Margrét Ingþórsdóttir varði vel í markinu, Arna Pétursdóttir var sterk í vörninni, sú brasilíska Marcia Silva klók á miðjunni og Harpa eitruð frammi. Liðið á síðan eftir að styrkjast þegar nígeríski varnarspilarinn sem er væntanlegur til landsins verður kominn með sína pappíra og standa vonir til að það gerist fyrir næsta leik sem verður við FH í Kaplakrika eftir viku, miðvikudagskvöldið 11. júní.