05. júní. 2008 07:30
Sveitarfélögin á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær auk Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, taka á sunnudag formlega á móti vottun frá alþjóðlegu umhverfisvottunarsamtökunum Green Globe. Eins og fram hefur komið í Skessuhorni eru sveitarfélögin þau fyrstu í Evrópu til að hljóta vottun fyrir stefnu og framkvæmd í sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála og fjórða svæðið í heiminum til að ná slíkum árangri.
Eiginlegt vinnuferli hófst árið 2003, en frá þeim tíma hafa orðið geysilegar breytingar á umhverfisstjórnun sveitarfélaganna. Allir leikskólar og fimm grunnskólar af sjö á Snæfellsnesi hafa fengið Grænfánann, hafnirnar í Stykkishólmi og á Arnarstapa eru komnar með Bláfánann en báðir fánarnir undirstrika umhverfisstjórnun og sjálfbærni í rekstri. Úrgangsmál hafa verið stórlega bætt og í öllum sveitarfélögum er nú tekið á móti flokkuðum úrgangi og flest heimili eiga þess kost að vera með endurvinnslutunnu. Vottun Green Globe verður endurnýjuð árlega og sveitarfélögin setja sér jafnframt markmið um áframhaldandi árlegar úrbætur í rekstri sínum. Viðurkenningar um vottunina verða afhentar forsvarsmönnum sveitarfélaganna í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði á sunnudag kl. 14.30. Viðstaddir verða meðal annars forseti Íslands, forseti Alþingis, alþingismenn og aðrir góðir gestir. Allir eru velkomnir.