Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. júní. 2008 09:12

Brautskráning nemenda frá Háskólanum á Bifröst

Brautskráning nemenda frá Háskólanum á Bifröst fór fram sl. laugardag. Að þessu sinni voru 99 nemendur útskrifaðir en það mun vera mesti fjöldi í einu lagi frá upphafi skólans. Nú þegar skólinn á Bifröst fagnar níutíu ára starfsafmæli sínu voru í fyrsta sinn brautskráðir nemendur úr meistaranámi í International Banking and Finance, meistaranámi í skattarétti, fjarnámi í frumgreinadeild og diplómanámi í rekstri smárra fyrirtækja. Í hátíðarræðu sinni kom Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst víða við. Sagði hann m.a. frá nýju viðskiptanámi sem einvörðungu verður kennt á ensku, ræddi hann um sérstöðu og nauðsyn háskóla á landsbyggðinni til að halda jafnvægi í byggð og ræddi um þá ábyrgð sem hvílir á herðum þeirra sem útskrifast sem Bifrestingar.

 

 

Viðheldur jafnvægi í byggð

Í hátíðarræðu sinni sagði Ágúst Einarsson, rektor skólans m.a. að menntun og menning séu lykillinn að því að halda jafnvægi í byggð landsins og ef stjórnvöld vilja þetta jafnvægi beri að efla þá háskóla sem starfa á landsbyggðinni. “Ef stjórnvöld vilja þetta jafnvægi þá ber að efla þá háskóla sem eru á landsbyggðinni, skóla sem eiga langa sögu samofna þjóðinni hvort sem þeir skólar eru á Akureyri, Hvanneyri, Hólum eða á Bifröst. Þessir fjórir skólar eru reiðubúnir til að berjast fyrir vandaðri háskólakennslu og rannsóknum, fullnægja þörfum landsins á afmörkuðum sviðum og vera forystuaflið í hinu nauðsynlega jafnvægi í landi þar sem 2/3 hluta þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu og ¾ hluta þjóðarinnar búa á svæði sem er innan við klukkutíma akstur frá Lækjartorgi. Slík þéttbýlismyndun er einsdæmi í veröldinni. Við á Bifröst erum mjög vel meðvituð hvar fólkið er enda koma flestir af okkar nemendum af því svæði þar sem flest fólkið er. Háskólinn á Bifröst hefur opnað útibú víða um land en enn ekki í Reykjavík en það kemur að því innan tíðar,” sagði Ágúst.

 

Menntun er útflutningsvara

Samkeppni skóla á háskólastigi hér á landi er sífellt að aukast og þeim því hverjum þeirra nauðsynlegt að vera sífellt að brydda upp á nýjungum. Frá og með næsta hausti mun Háskólinn á Bifröst bjóða upp á nám í viðskiptafræði sem alfarið verður kennt á ensku. Ágúst sagði að með því væri verið að höfða til fólks af erlendum uppruna hér á landi sem og til fólks sem búsett er erlendis. “Ég tel að Íslendingar geti orðið útflytjendur á menntun. Menntun er auðlind eins og fiskurinn, fallvötn, jarðvarmi og náttúrufegurð. Útrás getur verið fólgin í háskólakennslu fyrir útlendinga og við á Bifröst ætlum að róa á þau mið. Þeir fiska sem róa og það hafa Íslendingar svo sannarlega sýnt síðustu 100 árin,” sagði Ágúst.

 

Afsláttur af skólagjöldum

Að vanda voru þeir nemendur heiðraðir sem náðu framúrskarandi námsárangri. Útskriftarverðlaun og sæti á Bifrastarlistanum hlutu Bryndís Matthíasdóttir, Halla Bjarnadóttir og Sigurbergur Ármannsson í grunnnámi og Þórarinn Ingi Ólafsson og Eyrún Guðjónsdóttir í meistaranámi. Viðurkenningar nemenda sem enn eru í námi felast í afslætti af skólagjöldum næstu námsannar og sæti á Bifrastarlistanum svokallaða. Þeir nemendur eru: Árni Þór Finnsson, Árni Sverrir Hafsteinsson, Ásta Jóhannsdóttir, Gylfi Jónsson, Hafdís Anna Bragadóttir, Halldór Berg Harðarson, Helga Björg Jónsdóttir, Kristín Anna Hjálmarsdóttir, Linda Björk Sigurðardóttir, Ragnhildur Sigurbjartsdóttir, Rósamunda Jóna Baldursdóttir, Snorri Guðmundsson, Snorri Snorrason, Svanhildur Jónsdóttir og Þórhildur Ósk Halldórsdóttir.

Að lokinni athöfn í Hriflu var gestum boðið upp á veitingar í hinum gamla hátíðarsal skólans.

 

 

Ljósmynd: Fjölmennasti einstaki hópurinn sem útskrifaðist sl. laugardag var að ljúka námi við Frumgreinadeild skólans ýmist í stað- eða fjarnámi. Hér er hópurinn ásamt umsjónarmanni sínum og rektor.

 

Sjá fleiri myndir í næsta Skessuhorni.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is