Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
14. júní. 2008 11:08

Stórhuga hugmyndir um flugvöllinn á Stóra Kroppi

Stóra Kroppsflugvöllur. Ljósm. Mats Wibe Lund
Jón Þór Þorvaldsson er ungur atvinnuflugmaður sem á ættir sínar að rekja í Reykholtsdal í Borgarfirði. Auk þess að hafa flugmennsku sem atvinnu flýgur hann minni vélum í frítíma sínum og hefur ásamt nokkrum áhugaflugmönnum mikinn áhuga á að flugvöllurinn á Stóra Kroppi í Borgarfirði öðlist stærra og verðugra hlutverk en hann hefur í dag sem varaflugvöllur í innanlandsflugi og aðsetur örfárra einkaflugvéla. Jón Þór hefur kynnt hugmyndir sínar fyrir flugmálayfirvöldum, Flugstoðum, þingmönnum, sveitarstjórn Borgarbyggðar og víðar og segist fá góðar undirtektir. Miða hugmyndir hans að því að flugvöllurinn við Stóra Kropp verði stækkaður, flugbrautum fjölgað, flugskýli og mannvirki byggð og öðrum tilheyrandi búnaði komið upp.

Auk þess að þjóna hlutverki varaflugvallar myndi með tíð og tíma æfingaflug flytjast þangað úr höfuðborginni, þar væri hægt að stunda listflug, fallhlífastökk og svo framvegis. Fyrst og fremst segir hann þó að ýmiss skilyrði séu ákjósanleg, svo sem veðurfar, ríkið hafi þegar yfir að ráða landi og þurfi því ekki að byrja á að kaupa það háu verði, tillaga liggi fyrir um deiliskipulag og því segir hann í raun ekki eftir neinu að bíða með að leggja fjármuni til framkvæmdarinnar.

 

Þarf að styrkja flugnámið

 

Jón Þór Þorvaldsson
Í upphafi segir Jón Þór það löngu vera orðið ljóst að aðstaða til verkflugs, kennslu og einkaflugs hér á landi hafi aldrei verið þessari miklu flugþjóð til sóma. “Íslendingar hefur náð undraverðum árangri í að halda uppi samgöngum landshluta á milli með innanlandsflugi við afar frumstæðar aðstæður. Flugvellir án aðflugsvita, ljósabúnaðar eða viðunandi merkinga hefur verið regla frekar en undantekning á Íslandi. Segja má að frá því að flestum þessum flugbrautum var ýtt upp með jarðýtum á melum sem til féllu í sveitum landsins fyrir um 40 árum síðan, hafi lítið breyst.”

 

Jón Þór segir að svo virðist sem gleymst hafi í umræðunni að til að halda uppi innanlands- og millilandaflugi þurfi flugmenn og að einhversstaðar þurfa þeir að læra og hafa aðstöðu til æfinga. “Þjóðhagslegur ávinningur vegna flugsins er mikill og því finnst mörgum að flugnámi sé ekki gert nærri nógu hátt undir höfði þegar tillit er tekið til þess að ferðamenn leggja til næststærstan hluta af gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.”  Tekur hann dæmi að ef Icelandair fær nýja 200 sæta þotu í rekstur sem sinnir millilandaflugi þýðir það 200 störf sem af þeirri einu þotu leiðir.

 

Hentug staðsetning

Þá segir hann að flugkennsla eigi mikið undir högg að sækja í Reykjavík sem og annað verkflug vegna landleysis og þeirrar staðreyndar að sífellt þrengi að flugvellinum í Vatnsmýrinni. Hvað varðar kennslu, einka- og smærra verkflug segir Jón Þór að hægt sé að líta á uppbyggingu flugvallar á Stóra Kroppi í víðara samhengi og byggja upp aðstöðu sem nýst gæti breiðum hópi væri hún þetta stutt frá höfuðborgarsvæðinu. Segir hann að staðsetning betri flugvallar að Stóra Kroppi væri kjörin leið til að koma til móts við þessar þarfir flugmanna til ýmiss konar æfingaflugs. “Þá er rétt að nefna að flugvöllur sem þessi getur þjónað sem varaflugvöllur fyrir Reykjavík. Það er nauðsynlegt að byggja upp slíkan flugvöll á öðru veðursvæði en Reykjavík sjálf er á, því ef Reykjavíkurvöllur er lokaður, er líklegt að erfitt reynist að sækja til Keflavíkur og þá er næsti kostur fyrir flugvélar í innanlandsflugi Akureyri, Vestmannaeyjar eða Ísafjörður. Þannig má ljóst vera að gríðarlegt hagræði fælist í því fyrir flugfélög að hafa nothæfan varaflugvöll nær borginni,” segir Jón Þór.

 

Landfræðilega vel staðsettur

“Landfræðileg staðsetning  Stóra-Kropps flugvallar er afar góð. Veðursæld er mikil í Borgarfirði og stutt er að fara frá höfuðborgarsvæðinu, eða u.þ.b. einnar klukkustundar akstur á bíl og um 20 mínútur flugleiðina.  Það gerir kostinn afar fýsilegan til afnota fyrir kennslu, verk- og einkaflug hvers konar. Strjálbýlt er í nágrenni vallarins og hindranir engar í að- og brottflugsáttum brauta.  Stóri Kroppur er einnig sérlega vel staðsettur með tilliti til flugleiða norður í land og vestur á firði sem bæði er hagstætt til millilendinga, eldsneytisáfyllingar og sem varavöllur fyrir innanlandsflug ef til kæmi hvers konar neyðarástand sökum veðurs eða annarra þátta. Þá má nefna að völlurinn gæti einnig þjónað sem hluti af almannavörnum með tilkomu frekari uppbyggingar.”

Þá segir Jón Þór að vert sé að gefa gaum hinum fjölmörgu atvinnutækifærum sem bæði tengjast mannvirkjum sem þessum beint sem og afleiddum störfum. Yrði það kærkomin viðbót og fjölbreytni við atvinnulíf í Borgarfirði.

 

Nauðsynlegar framkvæmdir

Jón Þór segir að ef farið yrði í framkvæmdir við að byggja upp aðstöðu sem nýst gæti sem stærstum hópi er mikilvægt að hugsa til lengri tíma. Uppbygging flugvallar og mannvirkja sem tekur 10-15 ár, en gæti þjónað landsmönnum í a.m.k. 50 til 70 ára, er því hagkvæmur kostur og raunhæfur. Við framkvæmdina segir Jón Þór að mikilvægt sé að hugsa til framtíðar í víðu samhengi. “Ef vel á að takast til við að byggja upp framtíðarflugvöll sem verður fyrirmynd þess sem á eftir mun koma dugir ekki að hugsa um eitt kjörtímabil eða fáein misseri. Það þarf kjark og áræði svo að úr megi rætast draumur, sem þó er svo nálægur að nú þegar liggja fyrir tillögur að framtíðarskipulagi Stóra – Kropps flugvallar.”

Meðal þeirra framkvæmda sem Jón Þór nefnir að ráðast þurfi í er lenging flugbrautar til beggja enda svo að endanlega nái brautin allt að 1000 metrum. “Þá þarf að koma fyrir brautarljósum á þeirri braut svo og að koma upp radíóvita við völlinn svo að fýsilegt væri að beina blindflugsæfingum og kennslu að Stóra – Kroppi. Frátekið svæði undir hugsanlega þverbraut sem gæti náð allt að 600 metrum og svo annarri sem lægi samsíða aðalbrautinni sem nú er og gæti sú braut einnig náð um 600 metrum. Nýju brautirnar tvær væru hugsaðar sem vettvangur einkaflugs á svif-, fis- og vélflugum að ógleymdu fallhlífastökki og listflugi.  Jón Þór segir að nægt rými sé til nýbygginga á svæðinu, bæði austan og vestan vallarins. Þá hefur tillaga að deiliskipulagi svæðisins þegar verið gerð hjá Tækniþjónustu Bjarna Árnasonar. Þar er gert ráð fyrir byggingareitum sem rúmað gætu 10 – 15 þúsund fermetra af byggingum.

 

Einkaaðilar þegar byrjaðir

Jón Þór segir að gríðarmikill áhugi sé fyrir málinu bæði heima í héraði svo og hjá aðilum sem búa á suðvesturhorni landsins. “Upphaf á þessum framkvæmdum þolir litla bið en krefst engu að síður góðrar skipulagningar. Nú þegar eru hafnar framkvæmdir einkaaðila við byggingu á níu flugskýlum við Stóra Kroppsflugvöll sem segir meira en mörg orð um áhugann sem fyrir málinu er. Því er mikilvægt að framkvæmdir á vegum hins opinbera hefjist strax í vor til að búa flugmönnum, flugrekendum og skólum aðstöðu sem nýtist strax en ekki bara seinna,” segir Jón Þór Þorvaldsson að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is