15. júní. 2008 10:14
 |
Ásta K Davíðsdóttir, landvörður |
Vesturland hefur uppá margar náttúruperlur að bjóða. Sum þessara svæða njóta verndunar í náttúruverndarlögum en þar sem þetta eru aðskilin svæði í stóru umdæmi hefur hingað til ekki verið notast við landvörð til þess að líta eftir þeim. Þessu varð þó breyting á í sumar samfara áætlun um bætt aðgengi að þessum stöðum. Skipaður hefur verið landvörður sem mun hafa umsjón með Eldborg, Grábrók, Hraunfossum, Geitlandi og Húsafellsskógi, en öll þessi svæði tilheyra Borgarbyggð.
Það kom í hlut Ástu K. Davíðsdóttur að taka að sér þetta reynsluverkefni Umhverfisstofnunar. Ef landvarslan gengur vel á svæðinu í sumar er hugsanlegt að skoðuð verði önnur sambærileg svæði í framhaldinu og landvarsla verður því að líkindum útbreiddari í framtíðinni en nú er.
Hlutverk landvarða er margþætt en þeirra helst eru móttaka og fræðsla, náttúruvernd, eftirlit og náttúrutúlkun. Að sögn Ástu verður á fyrsta sumrinu stefnt að því að stuðla að fræðslu og almennri þjónustu við ferðamenn. Hún segir auk þess að unnið hafi verið að bættu aðgengi að Hraunfossum undanfarin ár og munu þær framkvæmdir halda áfram í sumar, sér í lagi í sambandi við aðgang fatlaðra. Sömuleiðis verður unnið að bættu aðgengi við Grábrók, en stígar á því svæði eru farnir að láta á sjá.
Ásta er þrautreyndur Landvörður en hún hefur starfað í Snæfellsjökulsþjóðgarði undanfarin ár og lítur á sig sem landvörð fyrst og fremst þótt hún starfi aðeins við það á sumrin, enda fá heilsársstörf í geiranum. Hún hóf störf þann 2. júní sl. í nýja starfinu en segist enn vera að kynna sér svæðið og hitta fólk sem hefur atvinnu af ferðaþjónustu á svæðinu, auk annarra samstarfsaðila. Ásta segist ætla að vera með skipulagðar gönguferðir um svæðin í sumar, eins og gert er í þjóðgörðum landsins. Fyrstu gönguferðirnar verða núna um helgina í sambandi við hinn samnorræna „Dag hinna villtu blóma” sem er nk. sunnudag. Þá verða tvær göngur farnar, annarsvegar á Hvanneyri kl. 10 (hist við Hvanneyrarkirkju) og hinsvegar verður ganga á Eldborg kl. 14:00 (mæting við göngumerkið við brúna á Snorrastöðum).