19. júní. 2008 07:50
Sumarstafið er komið á fullt í Vatnaskógi, stærstu sumarbúðum landsins. Það hófst á svokölluðum „gauraflokki“ sem eru sérstakar sumarbúðir fyrir stráka með miklar raskanir. Að sögn séra Sigurðar Grétars Sigurssonar er þetta í annað sinn sem „gauraflokkur“ er haldinn. Þessar sérstöku sumarbúðir nutu fjárstuðnings velferðarsjóðs barna og fleiri aðila. Án utanaðkomandi fjárstuðnings væri ekki unnt að bjóða upp á „gauraflokk“ að sögn Sigurðar Grétars, en hann var forstöðumaður flokksins ásamt Bóasi Valdórssyni sálfræðingi.
„Samstilltur hópur starfsmanna, sálfræðinga, ráðgjafa og sumarbúðastarfsmanna nutu sérhvers dags til hins ýtrasta með vöskum drengjum í Vatnaskógi. Vatnið togaði drengina til sín eins og oftast, auk þess sem listasmiðjan var vinsæl en þar leiddi starfið listmeðferðarfræðingur. Smíðastofan, heitu pottarnir, íþróttahúsið, þythokký, trambolín, fótboltavellir, skógurinn og margt fleira sem Vatnaskógur hefur uppá að bjóða, var í fullri notkun allan tímann,“ segir Sigurður Grétar.
Hjá „gauraflokknum“ eins og í öðrum sumarbúðum er á morgnana biblíufræðsla með söng og á kvöldin er kvöldvaka með miklum söng, framhaldssögu og hugvekju.
Vatnaskógur eru kristilegar sumarbúðir á vegum KFUM og K og hafa verið reknar síðan 1923. Í sumarbúðunum er lögð stund á mannrækt á kristnum grunni, þar sem saman fer leikur, fræðsla og skapandi starf. Þeir sem dvelja í Vatnaskógi verða skógarmenn en núlifandi skógarmenn eru orðnir yfir 20.000. Síðar í sumar, dagana 5.-10. ágúst, verður síðan unglingaflokkur fyrir 14-17 ára unglinga af báðum kynjum. Hátt í 1000 börn og unglingar sækja Vatnaskóg í sumar, margir í annað og þriðja sinn.