Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
20. júní. 2008 07:41

Nýtt stjórnskipulag Akraneskaupstaðar kynnt

Meirihluti bæjarstjórnar Akraness hefur á tveimur fundum síðustu daga kynnt minnihluta bæjarstjórnar drög að nýju stjórnskipulagi fyrir Akraneskaupstað. „Með þessu nýja stjórnskipulagi tölum við um að breyta frá pýramídaskipulagi yfir í lárétt skipulag eða lárétt netskipulag, eins og sumir vilja kalla það,” segir Gísli S. Einarsson bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn. Nýja stjórnskipulagið byggir á þremur megin ráðum; fjölskylduráði, bæjarráði og framkvæmdaráði og verða þau öll skipuð kjörnum fulltrúum. Þessi ráð heyra beint undir bæjarstjóra en undir fjölskylduráð heyrir fjölskyldustofa, sem Gísli telur þó líklegt að verði skipt í tvennt á undirbúningsferlinu. Undir bæjarráð heyra aðalaskrifstofa, skipulags- og umhverfisstofa ásamt sérverkefnum. Undir framkvæmdaráð heyrir síðan framkvæmdastofa.

 

Gísli segir undirbúningsferli fyrir þessar breytingar standa yfir núna en um áramót eigi nýja stjórnskipulagið að taka við og innleiðing þess standi næsta ár en þá taki eftirfylgni við til að fylgja eftir og skoða hvernig tekist hafi til. „Í meirihlutasamþykkt við byrjun síðasta kjörtímabils, sem nú er hálfnað, var gert ráð fyrir að skoða breytingar á stjórnskipulagi bæjarins. Árið 2006 skoðuðum við það sem gert hafði verið í þessum málum á Akureyri en héldum síðan áfram að skoða þetta með Akranes í huga og sáum að ýmislegt þar og í Hafnarfirði hentaði okkur þrátt fyrir að við séum aðeins 6.500 eða mun fámennari en þessi sveitarfélög. Við ákváðum að setja allan framkvæmdaþáttinn undir eitt ráð og nú þegar er ljóst að núverandi bæjarstjóri er tilbúinn að verða framkvæmdastjóri nýs framkvæmdaráðs. Við getum sagt að tæknideildinni verði skipt í tvennt. Annars vegar verður tæknideild og hins vegar skipulags- og umhverfisstofa,” segir Gísli.

 

Aukið vægi kjörinna fulltrúa

Ráðin þrjú verða með sjálfstæðan fjárhag innan þess ramma sem bæjarstjórn ákveður. „Með því að hafa þar kjörna fulltrúa er verið auka skilvirkni og ábyrgð. Þannig verða fulltrúar minnihluta alltaf með í undirbúningi allra mála, fjölskylduráðið og framkvæmdaráðið hafa jafn mikið vægi og bæjarráðið. Það ættu því engin mál að koma bæjarfulltrúum á óvart á seinni stigum,” segir Gísli.

 

Nýtt þjónustuver verður opnað á neðstu hæð ráðhússins við Stillholt. Þar eiga bæjarbúar að geta fengið alla daglega þjónustu en Akraneskaupstaður hefur þegar keypt húsnæði VÍS á fyrstu hæðinni og handsalað hefur verið samkomulag um kaup á húsnæði Landsbankans í sama húsi.

 

„Við ætlum líka að gera nánari skilgreiningu fyrir hvern starfsmann í stjórnkerfi bæjarins og stefnum að því að hver og einn starfsmaður hafi meira vægi og aukna ábyrgð. Við höfum 4 til 5 mánuði til að vinna að þessum breytingum og ætlum að undirbúa þær vel. Tveir fundir hafa þegar verið haldnir með minnihlutanum og þessar hugmyndir fengu góðar viðtökur. Í dag, miðvikudag, verður þetta svo kynnt fyrir starfsfólki í stjórnsýslunni,” segir Gísli og bætir við að Jóhann Þórðarson endurskoðandi bæjarins hafi unnið ómetanlegt starf við þróun þessara hugmynda. „Jóhann hefur verið að koma með ábendingar í þessum málum síðustu átta ár og það er ómetanlegt fyrir okkur að hafa hann með í þessari vinnu. Sjálfur hefði ég aldrei komist í gegnum þetta nema með hans aðstoð,” segir Gísli.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is