20. júní. 2008 02:59
Í liðinni viku kom línubáturinn Kristinn SH úr viku löngum línutúr þar sem báturinn var á haukalóð og langt að fara á veiðislóð. Aflinn í þessum túr var um fjögur tonn af stórlúðu og tonn af öðrum fiski. Þar í voru 10 stykki af aldamótakarfa sem er orðinn frekar sjaldséður fiskur. Bárður Guðmundsson skipstjóri segir að aldamótakarfinn fáist aðallega í djúpköntunum út af Reykjaneshryggnum en áður fyrr var hægt að fá karfann víða í Kolluálnum en það er liðin tíð. “Við fengum þennan karfa vestur af Reykjanesi á 400 faðma dýpi og er hver karfi um átta til tíu kíló að þyngd,“ sagði Bárður. Á myndinni er Bárður Guðmundsson ásamt Hafsteini, Bárði og Ingvari Frey. Eins og sjá má eru karfarnir stórir og myndarlegir.