30. júní. 2008 03:37
Í fréttum Stöðvar2 í gær var viðtal við Sigurbjörn Hjaltason bónda á Kiðafelli í Kjós. Hann heldur því fram að flúormengun í jarðvegi frá álveri Norðuráls á Grundartanga sé langt fyrir ofan leyfileg mörk og skaðaði búfénað sem meðal annar verður fyrir tannlosi af völdum þess. Norðurál sendi í dag frá sér tilkynningu um þetta þar sem segir að nokkurs misskilnings virðist gæta í fréttaflutningnum. “Norðurál notar hágæða hráefni í sína framleiðslu, þar á meðal rafskaut, og beitir bestu fáanlegu tækni. Í þeim rafskautum sem Norðurál notar er enginn flúor. Allri losun og umhverfisáhrifum álversins eru sett ströng mörk í starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Losun flúors, sem annarra efna, hefur ávallt verið innan settra marka,” segir í tilkynningu fyrirtæksins.
Þá segir að á árunum 2006 og 2007, þegar gangsetning kerja vegna stækkunar álversins stóð yfir, hafi losun flúors aukist um tíma eins og eðlilegt er við slíkar aðstæður. “Þessi aukning var ekki umfram það sem við var búist og heimild var fyrir undir stjórn Umhverfisstofnunar. Umhverfi álversins er vaktað ítarlega af óháðum sérfræðingum með rannsóknum á lofti, sjó, grunnvatni, gróðri, dýrum og fleiru. Vöktun fer fram á yfir 100 stöðum í Hvalfirði. Flúormagn í grasi utan þynningarsvæðis hefur ætíð verið undir viðmiðunarmörkum. Við skoðun á fé hafa aldrei fundist skemmdir eða kvillar sem rekja má til flúors, hvorki við almenna sýnatöku né þegar taka þurfti af allan vafa með nánari rannsóknum,” segir í tilkynningu Norðuráls.