Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. júlí. 2008 04:39

Afar vel heppnaðir Írskir dagar

Mikill mannfjöldi var saman kominn á Írskum dögum á Akranesi sem er við það að ljúka nú síðdegis á sunnudegi. Fór hátíðin vel fram að sögn lögreglu og skipuleggjenda. Talið er að gestir í bænum hafi verið 5-6 þúsund og því má segja að íbúatalan hafi tvöfaldast. Breyttar reglur um tjaldstæði og öflug gæsla varð þess valdandi að á tjaldsvæðin í Kalmansvík náðu ólátabelgir ekki að hreiðra um sig og þar þreifst meðferð fíkniefna ekki. Gestum undir lögaldri var hiklaust vísað heim til föðurhúsanna og strangt tekið á aldurstakmörkunum og hegðun allri. Fyrir bragðið hafði hátíðin að þessu sinni þann brag á sér að hafa verið vel skipulögð og heppnuð fjölskylduhátíð þar sem allir gátu skemmt sér í sátt og samlyndi. Skipuleggjendur og gæsluaðilar á hátíðinni eru því á einu máli um að nú hafi tekist að finna rétta púlsinn og því geti menn óhikað stefnt á sambærilegra hátið að ári þar sem sömu reglur verða í gildi og eftirlit verði með svipuðu sniði og nú var.

 

Fjölbreytt dagskrá

Dagskrá hátíðarinnar hófst á fimmtudag og kenndi þar margra grasa. Á föstudagskvöldið safnaðist t.d. mikill mannfjöldi saman á Kirkjubraut þar sem hljómsveitirnar Í svörtum fötum og Nýdönsk skemmtu ungum sem öldnum. Gríðarlega góð stemning var fram undir miðnætti og allir sem einn nutu veðurblíðunnar. Skipulögð dagskrá Írskra daga var mjög þétt og raunar erfitt fyrir þá sem vildu fylgjast með öllu að ná því. Nefna má að markaður var í íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum, írskir dansar og söngvar voru fluttir, sandkastalakeppni var á Langasandi þar sem einnig fór fram sýning mótócrossfólks og bátarall. Fornbílar komu í heimsókn, börn kepptu í dorgveiði á Akranesbryggju, leiktæki voru fyrir börnin, Akraneshlaupið fór fram, keppnin um rauðhærðasta Íslendinginn og fjölmenn barnaskemmtun var í Garðalaundi í dag. Þá sótti fjölmenni Lopapeysuballið í Sementsskemmunni í gærkvöldi sem þótti takast vel.

 

Tíu þúsund með öllum

“Ég er afskaplega ánægður með hvernig til tókst með allt og skipulagið virðist í öllum meginatriðum hafa gengið upp,” sagði Tómas Guðmundsson, framkvæmdastjóri Írskra daga í samtali við Skessuhorn nú rétt í þessu. Um hátíðina sjálfa segir hann að dagskrárliðir hafi gengið vel enda voru veðurguðirnir henni hliðhollir alla helgina. “Það var metþátttaka í flestum ef ekki öllum dagskrárliðum sem í boði voru og við reiknum með að gestir og íbúar hafi verið alls um 10 þúsund á hátíðinni. Mikið var um að fólk kom í dagsferð á Skagann og naut hátíðarinnar með heimamönnum. Skagamenn og gestir voru því ágætlega sáttir og það er fyrir mestu,” sagði Tómas. Hann sagði mikilvægt að allt skipulag og öflug gæsla á tjaldstæðum bæjarins hafi gengið upp.  Það hafi gert gæfumuninn og því hafi ekki komist fólk á Írska daga sem hafði annað í huga en skemmta sér á hófstilltan hátt. “Lögregla sendi of unga krakka heim til föðurhúsanna og lét foreldrana jafnvel sækja þá. Fíkniefnaleit var öflug sem og gæsla öll. Það var að vísu sláandi hversu mikið var um að foreldrar sendu of unga krakka á hátíðina en á því var tekið,” sagði Tómas.

 

Lögreglan ánægð

Það var létt yfir Jóni S Ólasyni yfirlögregluþjóni á Akranesi þegar Skessuhorn ræddi við hann síðdegis í dag. Hann sagði að breyting á reglum um tjaldstæði og markviss undirbúningur heimamanna hafa skilað þeim árangri að Írskir dagar væru nú aftur komnir til að vera í huga lögregluyfirvalda. “Ég er mjög ánægður með helginu. Það er að sýna sig að aðgerðir allra sem komu að undirbúningi, gæslu og vinnu við hátíðina skilaði árangri. Okkur tókst að halda ólátabeljum frá bænum þrátt fyrir að þeir hafi reynt að hreiðra um sig. Allir sem komu að þessu, þ.e. björgunarsveit, lögregla og Öryggismiðstöð Íslands gengu hart fram í gæslu og ekki sakaði að við höfðum þaulvana dyraverði úr Reykjavík okkur til aðstoðar á tjaldsvæðinu,” sagði Jón í samtali við Skessuhorn.

Þá vísaði lögregla frá öllum þeim sem reyndu að tjalda á almennum svæðum utan tjaldsvæðisins,” sagði Jón. Lögreglan var við öllu búin og alls kom á fjórða tug lögreglumanna frá embættinu á Akranesi, Borgarnesi og Reykjavík að gæslu auk starfsmanna fíkniefnadeildar og leitarhundi frá Borgarnesi. Þá sagði hann góða samvinnu hafa verið við umferðardeild um þjóðvegaeftirlit, en helgin er líklega ein mesta umferðarhelgi ársins.

 

Fíkniefnamál fjórðungur þess í fyrra

Jón segir að það hafi verið í nægu að snúast hjá lögreglu, en allt hafi það verið tiltölulega auðleyst mál sem komu til kasta hennar og smáræði miðað við mannfjöldann í bænum þessa helgi. “Fjöldi fíkniefnamála var tíu núna sem er einungis fjórði partur af því sem var í fyrra. Engin meiriháttar mál komu upp, einhverjir smápústrar eins og gengur og mjög fáir sem þurftu gistingu á kostnað ríkisins. “Í það heila tekið gekk allt upp og fór eins og menn vonuðu.  Þetta var skemmtileg helgi, nóg að gera en alls ekki ástæða til að leggja til endurskoðun Írskra daga eins og verið hefur í umræðunni eftir Írska daga tvö síðustu ár,” sagði Jón S Ólason að lokum.

 

 

Fjöldi mynda af Írskum dögum verður í Skessuhorni í næstu viku.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is