Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. júlí. 2008 11:10

Skaginn búinn að fá á sig 11 mörk í tveimur leikjum

Ein af fáum sóknum Skagamanna í leiknum.
Það var spenna í loftinu þegar flautað var til leiks á Skaganum í gærkvöldi þegar FH-ingar komu í heimsókn, enda fyrsti leikur ÍA-liðsins undir stjórn tvíburanna Arnars og Bjarka. Í vændum var viðburðaríkur leikur, en vonir áhangenda Skagamanna um að þeir hefðu endurheimt sjálfstraustið og náð að rífa sig upp fyrir leikinn, brugðust. Það verður að segjast eins og er að gestirnir voru með yfirhöndina allan leikinn og boltinn inn á varnarhelmingi Skagaliðsins tímunum saman. FH-ingar fengu fjölmörg færi í leiknum á meðan Skagamenn náðu ekki mörgum góðum sóknum en nýttu að sama skapi færin sín nokkuð vel. Sigur FH-inga, 5:2, var sanngjarn og hefur Skagaliðið nú fengið á sig 11 mörk í tveimur leikjum. Stuðningsmenn ÍA verða að bíða næsta leiks liðsins í Landsbankadeildinni, gegn Fram á Laugardalsvelli um miðja næstu viku, til að sjá hvort tvíburarnir ná að blása nýjum glæðum í leik Skagaliðsins.

Eftir að fregnir höfðu borist um að Bjarni Guðjónsson fyrirliði Skagaliðsins væri á förum til KR á næstu dögum voru uppi efasemdir um að hann yrði eftir allt saman settur í liðið gegn FH, en Bjarni var í liðinu. Hann fór fyrir sínum mönnum og var áberandi besti maður liðsins, sérstaklega eftir að Skagamenn voru orðnir einum færri en þá fór hann í vörnina. Þá kom inn í liðið hinn ungi Guðmundur Böðvar Guðjónsson, sem einnig átti skínandi leik og var einn örfárra sem náðu að stíga upp hjá Skagaliðinu í leiknum. Björn Bergmann Sigurðarson átti góðan leik, sem og bróðir hans Þórður sem lék mestmegnis í stöðu bakvarðar lengst af. Þá átti Árni Ingi Pjetursson sterka innkomu í seinni hálfleiknum.

 

Leikurinn byrjaði fjörlega og gestirnir gerðu fljótlega harða hríð að marki Skagans og sóttu til skiptis upp kantana. Sýnt var að ef þetta yrði þróunin í leiknum myndi mikið reyna á markmanninn unga í  Skagamarkinu, Trausta Sigurbjörnsson, sem varð raunin. FH-ingar komust yfir á 16. mínútu þegar Matthías Vilhjálmsson skoraði með skalla eftir aukaspyrnu. Skagamenn náðu að svara með sóknum eftir markið en fengu annað mark í andlitið á 33. mínútu. Atli Guðnason fékk boltann hægra megin við teiginn og átti gott skot á fjærstöngina sem Trausti náði ekki að komast fyrir. Þrátt fyrir þetta mótlæti héldu Skagamenn haus og fimm mínútum síðar, á þeirri 38., náði Björn Bergmann að minnka muninn þegar hann komst einn í gegn eftir góða stungu frá Bjarna Guðjónssyni. Markið kom á góðum tíma, en þrátt fyrir það tókst FH-ingum að svara í sömu mynt. Á 40. mínútu komst Matthías Vilhjálmsson einn í gegn. Heimir Einarsson felldi Matthías og rændi hann dauðafæri. Hinn litríki dómari Garðar Örn Hinriksson sýndi Heimi umsvifalaust rauða spjaldið og Tryggvi Guðmundsson skoraði síðan af öryggi úr vítinu.

 

Segja má að það hafi þurft æði mikla bjartsýni til að ætla að Skagamenn næðu einum færri að vinna upp muninn, 1:3, hvað þá að knýja fram sigur. FH-ingar bættu við fjórða markinu á 49. mínútu. Var Tryggvi þar aftur á ferðinni. Þrettán mínútum síðar kom fimmta mark FH-inga þegar varnarmaðurinn Ásgeir Gunnar Ásgeirsson skoraði með skalla af stuttu færi. Skagamenn náðu svo aðeins að laga stöðuna sex mínútum síðar, á 68. mínútu, þegar Árni Ingi Pjetursson átti góða sendingu inn fyrir á Guðmund Böðvar Guðjónsson sem vippaði boltanum snyrtilega yfir Gunnar Sigurðsson í FH-markinu. En þar með var sagan öll og vonandi eru eftir allt saman bjartari tímar framundan í fótboltanum í næsta leik þegar tvíburarnir verða að fullu mættir til leiks og búnir að fá tíma til að stilla strengina með strákunum í Skagaliðinu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is