22. september. 2008 10:12
Skessuhorn greindi frá því í síðustu viku að Akraneskaupstaður hafi veitt Fréttablaðinu tímabundið leyfi til uppsetningar 12 blaðakassa í bænum. Þetta er gert vegna uppsagna blaðburðarfólks Fréttablaðsins í fimm sveitarfélögum næst höfuðborgarsvæðinu. Í fréttinni var jafnframt sagt að Borgarbyggð hefði heimilað uppsetningu þessara kassa. Það reyndist hins vegar ekki vera raunin þegar kom til afgreiðslu byggðaráðs. Frétt Skessuhorns byggðist annars vegar á bókun sem umhverfis- og landbúnaðarnefnd gerði 10. september sl. og hins vegar bókun frá fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 2. september þar sem báðar þessar nefndir samþykktu að veita Fréttablaðinu leyfi til uppsetningar blaðakassanna til reynslu í ½ ár. Byggðaráð ákvað sem sagt á fundi sínum 17. september sl. að hafna umsókn Fréttablaðsins um blaðakassa í Borgarnesi þvert gegn vilja beggja nefndanna.