30. september. 2008 10:02
 |
Á þriðja hundrað álftir í einum akri. Ljósm. RS |
Hópar gæsa og álfta geta verið afar aðgangsharðir í kornökrum bænda og valdið miklum skaða. Undanfarnar vikur hefur ekki verið hægt að þreskja korn vegna rigninga og hafa bændur þurft að verja akra sína með tiltækum ráðum, en það getur reynst þrautin þyngri. Þannig var haft eftir Magnús Eggertssyni bónda í Ásgarði í Borgarfiði að meðalstór gæsahópur getur étið og eyðilagt hálfan til einn hektara korns á sólarhring. Meðfylgjandi mynd var hinsvegar tekin í Kolbeinsstaðahreppi um liðna helgi og sýnir hún hvorki fleiri né færri en 219 álftir sem gerðu sig óþarflega heimakomnar í kornökrum bænda þar. Gera má því skóna að afköst eða eyðilegging slíks hóps sé á við afköst þokkalegrar þreskivélar.