Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
30. október. 2008 02:00

Allt í steik til minningar um Theodór

Theodór Fr Einarsson
Síðasta vor, nánar tiltekið 9. maí, voru 100 ár liðin frá fæðingu þess manns sem hefur auðgað tónlistar- og menningarlíf á Akranesi hvað mest síðustu öldina, Theodórs Fr. Einarssonar, sem hér á árum áður var einn þekktasti gamanvísna-, dægurlaga- og revíuhöfundur landsins. Þessi fjölhæfi listamaður byrjaði ungur að yrkja og urðu textar eins og Angelia, Á hörpunnar óma og Kata rokkar afar vinsælir og eru það enn í dag. Vegna þessara tímamóta í vor kom upp sú hugmynd að við hæfi væri að minnast aldarafmælis Theodórs með veglegri tónlistardagskrá þar sem flutt yrðu hans þekktustu lög af ýmsum listamönnum. Það eru afkomendur skáldsins sem hafa veg og vanda að undirbúningi tónleika sem verða í Tónbergi á morgun, dætur Theodórs, Ragnhildur og Ester, að ógleymdum syni Esterar, Gunnari Sturlu Hervarssyni, sem hefur erft skáldagáfuna frá afanum og er þegar búinn að semja nokkra söngleiki. Ákveðið var að dagskráin ætti best heima á menningarhátíðinni Vökudögum.

Þau voru mætt á Skarðsbrautina til Ragnhildar mæðginin Ester og Gunnar Sturla að ræða við blaðamann um dagskrána, sem verður að stærstum hluta byggð upp á tónlist og einvörðungu flutt af listafólki af Skaganum. Kynnir verður leikarinn góðkunni og Skagamaðurinn Jakob Þór Einarsson, sem ásamt textatengingum milli laga mun syngja gamanvísur á skemmtuninni. Það er einmitt upphaf gamanvísu eftir Theodór sem dagskráin dregur nafn sitt af, Allt í steik. Hún var ásamt kveðskap Theodórs í gamanvísnabók sem hann gaf út á sínum tíma. Okkur kemur saman um að upphaf þessarar vísu, „Allt í steik“, sé eins og skrifað fyrir daginn í dag, en það er svona.

 

Það sést ei fyrir svælu og reyk

í ríkisstjórnar rassinn,

það er nú meiri gassinn.

Nú standa þeir í stælum

með buxurnar á hælum.

Allt í steik,

þeir sjást ei fyrir svælu og reyk.

 

Að minnsta kosti tvö barnabarna Theodórs munu stíga á svið á tónleikunum. Það eru þau Anna Halldórsdóttir og Gunnar Sturla. Anna, sem er dóttir Ragnhildar, kemur frá Bandaríkjunum þar sem hún hefur verið búsett síðustu árin. Þau Anna og Gunnar Sturla hafa bæði fengist við að semja tónlist og munu þau flytja efni eftir sjálf sig og Theodór afa.

 

Það var Ragnhildur sem tók að sér þann þátt undirbúnings fyrir skemmtunina að hringa í fólk út og suður til að fá það til að taka þátt og vera meðal flytjenda. „Það hefur bara gengið mjög vel að koma þessu saman og allir hafa tekið þessu svo vel. Ekki er það verra þegar verið er að undirbúna svona dagskrá að eiga þetta frábæra tónlistarfólk hérna á Skaganum, sem sumt hvert er búið að syngja þessi lög svo oft, að það þarf ekki að eyða löngum tíma í æfingar, eins og t.d. Andrea Gylfadóttir og Sigursteinn Hákonarson,“ segir Ragnhildur. Kammerkór Akraneskirkju flytur einnig nokkur lög undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar og í hljómsveit kvöldsins er valinn maður í hverju rúmi. Flosi Einarsson er hljómsveitarstjóri í „FE Group“ eins og hún er kölluð og fær Flosi frjálsar hendur með útsetningar laganna. Með Flosa eru Eðvarð Lárusson á gítar, Sigurður Þorgilsson á bassa og Birgir Baldursson á trommur.

 

Tónleikarnir fara fram í Tónbergi á morgun, 31. október og hefjast kl. 20. Þess má geta að forsala á Allt í steik fer fram í Versluninni Bjargi.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is