06. nóvember. 2008 07:40
“Við erum búin að bæta svokölluðum Dalamanna-bolla við framleiðsluna hjá okkur. Dalamenn geta því fengið sér Dalabollann til eignar eða gjafa, ef vill,” segir G. Helga Ingadóttir eigandi fyrirtækisins Eldstó á Hvolsvelli. Eldstó & Hús Leirkerasmiðsins hefur verið framarlega í hönnun á svokallaðri nytjalist og í Eldstó er efni til glerungagerðar sótt í auðlindir Íslands. “Þetta eru hágæða nytjaglerungar sem löngu eru búnir að sanna sig,” segir Helga en allt leirtau sem notað er í Eldstó er handunnið á staðnum með glerungi úr Búðardalsleir.
Síðastliðið sumar hóf fyrirtækið samstarf við Dalabyggð, gerði bikara merkta sveitarfélaginu og einnig bikara sem bera merki Landafundasetursins.
“Þeir voru að sjálfsögðu glerjaðir með glerungi úr þeirra eigin leir. Ástæðan fyrir því að við ráðumst í gerð bollanna nú er að við vildum endilega bjóða hinum almenna Dalamanni upp á að drekka úr bolla gerðum úr Búðardalsleir,” segir Helga og bætir því við að samstarfið við Dalabyggð hafi hlotið mikla athygli. “Fréttir birtust um það hjá bæði RÚV og Morgunblaðinu. Í kjölfarið kom Kastljós í heimsókn og tók upp þátt um verkefnið Eldfjallaglerunga og Eldstó. Það þykja því greinilega nokkur tíðindi að hægt sé að nýta þessa auðlind Íslands á þennan hátt.”
Þeir sem vilja kynna sér Eldstó nánar geta kíkt á heimasíðuna, www.eldsto.is.