10. nóvember. 2008 12:48
Erlendur leikmaður, sem jafnframt verður spilandi þjálfari Skallagríms, er á leiðinni til landsins og verður orðinn gjaldgengur þegar liðið sækir Tindastól heim á Krókinn nk. föstudagskvöld. Þetta er Igor Beljanski sem er íslensku körfuknattleiksáhugafólki að góðu kunnur, en hann hefur áður leikið með þremur liðum hér á landi, Snæfelli, Njarðvík og Grindavík. Búið var að ráða Igor, sem er tveggja metra miðherji, til Breiðabliks fyrir þessa leiktíð, en hann var sendur heim vegna efnahagsástandsins.
Eins og Skessuhorn hefur greint frá ætla stuðningsmenn Skallagríms að standa straum að tveimur leikmönnum til meistaraflokksins í vetur, án þess að það bitni á öðrum fjáröflunum félagsins. Hafsteinn Þórisson formaður deildarinnar segir að nú sé verið að leita að leikmanni sem henti í stöðu leikstjórnanda og er Igor meðal annarra að skoða þau mál, en hann þekkir vel til í Evrópu. Ljóst er að Skallagrímsliðið mun styrkjast mikið við komu tveggja erlendra leikmanna, en engu að síður er sýnt að á brattann verður að sækja, enda liðið skipað mjög ungum leikmönnum, en að sama skapi efnilegum.
Igor Beljanski leysir nú af hólmi við þjálfunina þrjá af leikmönnum Skallagrímsliðsins sem sinntu starfinu í millibilsástandi, þá Pálma Sævarsson, Finn Jónsson og Hafþór Inga Gunnarsson.