11. nóvember. 2008 10:49
 |
Bjarni Harðarson |
Bjarni Harðarson alþingismaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku. Þetta kemur fram á bloggsíðu hans þar sem hann segist hafa tilkynnt formanni Framsóknarflokksins og skrifstofustjóra Alþingis þessa ákvörðun sína nú þegar. Eins og fram hefur komið sendi Bjarni fjölmiðlum landsins í hópsendingu tölvupóst í misgripum þar sem í viðhengi er bréf sem tveir skagfirskir framsóknarmenn skrifuðu Valgerði Sverrisdóttur varaformanni flokksins. Í tölvupóstinum kemur fram að hann hafi átt að fara á aðstoðarmann þingmannsins þar sem Bjarni biður hann að búa til nafnlaust bréf sem sent verði fjölmiðlum með úrdrætti úr bréfinu til Valgerðar. Á bloggi sínu segir Bjarni:
„Í gærkvöldi urðu mér á alvarleg mistök og vitaskuld hljóp hér pólitískur hiti með mig í gönur. Ég hef af þeirri ástæðu ákveðið að segja af mér þingmennsku enda hefur það ævinlega verið bjargföst sannfæring mín að menn eigi alltaf að axla ábyrgð á eigin gerðum. Um leið og ég kveð stuttan og viðburðaríkan þingferil óska ég samstarfsfólki mínu á þingi og í Framsóknarflokki allra heilla,” segir Bjarni á bloggsíðunni.
Við þingmennsku af Bjarna tekur Helga Sigrún Harðardóttir, skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins. Hún var í 3. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í Alþingiskosningunum vorið 2007.