13. nóvember. 2008 07:28
 |
Gísli S Einarsson |
„Það er alveg ljóst að nú þegar kreppir enn harðar að sveitarfélögunum kemur aukinn þrýstingur á sameiningu þeirra. Mér finnst að smærri sveitarfélögin eigi að ráða ferðinni að mestu og þau stærri verði tilbúin að takast á við stærri sameiningar. Ég hef lengi séð það fyrir mér að sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar sameinist. Ég lít ekki aðeins til sameiningar við nágranna okkar í Hvalfjarðarsveiti heldur held ég að við eigum ágæta samleið með Borgarbyggð líka,“ segir Gísli S. Einarsson bæjarstjóri á Akranesi. Gísli segir sýnt að ráðherra sveitarstjórnarmála, Kristján L Möller, muni tala enn ákveðnar fyrir sameiningu sveitarfélaga en áður og vilji að þessi umræða haldi áfram, en hún hafi reyndar ekki verið mikil á þessu svæði undanfarið.
„Nágrannar okkar í Hvalfjarðarsveitinni þurfa líka að ná að anda. Það eru ekki nema tvö ár síðan hrepparnir sameinuðust og þeir þurfa sinn tíma til að vinna úr því. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að eðlilegra væri að Akranes og Hvalfjarðarsveit ynnu meira saman, t.d. varðandi skólamálin. Það hlýtur líka að reynast ekki fjölmennara sveitarfélagi erfiðleikum bundið að standa undir allri þeirri þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita,“ segir Gísli og bendir á að við sameiningu Akraness og Hvalfjarðarsveitar yrði til um 7.500 manna sveitarfélag, sem er sú tala sem ráðherra sveitarstjórnarmála hefur nefnt að sé heppileg stærð sveitarfélaga.
„Samgöngulega eiga sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar mjög góða samleið, þannig að ég held að margir sjái að til framtíðar væri eitt sterkt sveitarfélag mjög ákjósanlegt. Ég sé fyrir mér að Borgarbyggð og Akranes gætu rúmast í einu sveitarfélagi.“ Gísli segist ekki vera í vafa um að svæðið í heild sinni yrði mun sterkara með stóru sameinuðu sveitarfélagi þar sem þó yrðu ekki nema um tíu þúsund íbúar miðað við íbúatölur í dag.