Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
14. nóvember. 2008 09:06

Sjálfstæðismenn á Akranesi ósammála flokksforustunni

Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akranesi skorar á Geir H. Haarde forstætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins að skerpa nú þegar áherslur ríkisstjórnar Íslands við það mikla verkefni sem stjórnin stendur andspænis við endurreisn fjármálakerfis landsins. Forgangsverkefnið er að slá skjaldborg um fjárhagslega framtíð heimilanna í landinu.  Jafnframt telur stjórnin óhjákvæmilegt að nú þegar verði leitað eftir aðildarviðræðum að Evrópusambandið þannig að í ljós komi hvaða kostum þjóðin standi frammi fyrir ef til aðildar kemur. Þetta var samþykkt á fundi stjórnar fulltrúaráðsins í gærkvöldi. Þá skorar stjórnin á formann Sjálfstæðisflokksins að sjá til þess að við endurreisn fjármálakerfis þjóðarinnar veljist einungis til starfa þeir sem njóta óskoraðs trausts og hæfis til starfa. Óhjákvæmilegt sé í því ljósi að stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins víki nú þegar.

 

 

Stjórn fulltrúaráðsins telur að sá vandi sem íslenskir stjórnmálamenn standa nú frammi fyrir muni leiða í ljós styrk þeirrar stefnu sem þeir standa fyrir. Það er bjargföst trú stjórnarinnar að á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar, með hagsmuni allra stétta fyrir augum, verði vandamál þjóðarinnar best leyst  nú sem áður.

 

Stjórn fulltrúaráðsins sendi fjölmiðlum bréf í gær en undir það rita Magnús D Brandsson formaður og Halldór Jónsson ritari. Í greinargerð með ályktun stjórnarinnar segir að íslenskt þjóðfélag standi nú andspænis alvarlegri fjárhagslegum vandamálum en sést hafa í sögu hennar til þessa eftir hrun fjármálakerfis þjóðarinnar.

Í heild sinni er greinargerðin að öðru leyti þannig:

"Undanfarnar vikur hefur ríkisstjórn Íslands unnið að lausn aðsteðjandi vanda undir forystu Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins.  Að baki ríkisstjórninni er stærri meirihluti Alþingis en dæmi eru um og slíkt ætti að auðvelda pólitíska lausn mála. Aðeins skýr stefna, hreinskiptin og gagnýnin umræða ásamt  fumlausu upplýsingaflæði tryggir festu, sem nauðsynleg er á alvörutímum.

Hrun fjármálakerfis kallar óhjákvæmilega mikla erfiðleika yfir þjóðfélagið og því áríðandi að stjórnvöld starfi með styrkum hætti með jafnræði þegnanna að leiðarljósi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur með störfum sínum í ríkisstjórn undanfarin 17 ár staðið fyrir auknu frelsi og tímabærri markaðsvæðingu í þjóðfélaginu. Slíku frelsi hlaut óhjákvæmilega að fylgja ábyrgð og reglufesta af hálfu atvinnulífs og stjórnvalda. Því miður virðast þeir þættir hafa brugðist á undanförnum árum. Því eru það ekki óeðlileg viðbrögð almennings að kalla eftir ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á þeirri stöðu sem nú er upp komin. Þeirri ábyrgð verður flokkurinn að standa undir vilji hann halda því forystuhlutverki sem hann hefur gegnt á undanförnum áratugum.

Á skömmum tíma hefur orðspor Íslendinga beðið stórkostlegan hnekki. Við endurreisn fjármálakerfis þjóðarinnar verða stjórnmálamenn því að horfa gagnrýnum augum á atburðarás undanfarinna ára og leitast við að skýra með hvaða hætti þær aðstæður sköpuðust sem við nú stöndum frammi fyrir. Með gildum rökum hefur komið fram að peningamálastefna sú sem rekin var hafi ekki stuðlað að sterku fjármálakerfi. Einnig hefur komið í ljós að eftirlitsaðilar hafa ekki sinnt hlutverki sínu og upplýsingagjöf sem skyldi. Að vandasömu endurreisnarstarfi því sem framundan er geta aðeins komið að þeir sem fulls trausts njóta. Því er óhjákvæmilegt að stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins víki til þess að tryggja sem breiðasta sátt um endurreisnina. Jafnframt verða allir stjórnmálamenn að svara hver um sig þeirri spurningu hvort þeir njóti þess trausts og hæfis sem nauðsynlegt er í þá vinnu sem bíður þeirra. Með skjótum hætti verður einnig að tryggja að þeir sæti ábyrgð sem hugsanlega hafa brotið lög í aðdraganda hrunsins.

Á undanförnum vikum hefur komið æ betur í ljós að staða Íslands meðal þjóða er ákaflega veik. Þá stöðu er bráðnauðsynlegt að styrkja. Því er tímabært að  á ríkisstjórn Íslands hefji nú þegar aðildarviðræður við Evrópusambandið þannig að í ljós komi hvaða kostum þjóðin standi frammi fyrir ef til aðildar kemur. Óþolandi er að svo stórt hagsmunamál sé ekki kannað til hlýtar með formlegum aðildarviðræðum.

Verðbólga hefur vaxið á undanförnum mánuðum og því miður bendir flest til þess að hún aukist mjög á næstu mánuðum. Sú þróun mun að óbreyttu hafa í för með sér fjöldagjaldþrot hjá heimilunum í landinu.  Slíkt má aldrei gerast. Slá þar án tafar skjaldborg um heimilin með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru. Í því sambandi skal bent á afnám eða tímabundna frystingu verðtryggingar lána sem og frystingu gengistryggðra lána.

Sá vandi sem íslenskir stjórnmálamenn standa nú frammi fyrir munu leiða í ljós styrk þeirrar stefnu sem þeir standa fyrir. Það er bjargföst trú stjórnar Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akranesi að á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar með hagsmuni allra stétta fyrir augum verði vandamál þjóðarinnar best leyst  nú sem áður."

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is