Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
17. nóvember. 2008 12:17

Þríkelfingar komu í heiminn á Hjarðarfelli

Sá sjaldgæfi atburður átti sér stað á bænum Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi sl. laugardag að kýrin Sletta bar þremur kálfum, tveimur nautum og einni kvígu. Kálfarnir eru allir vel sprækir og við vigtun daginn eftir reyndust þeir vega 30,8 kg, 30,6 kg. og 28,8 kg. eða samtals 90,2 kg. Kálfarnir hafa fengið nöfnin Þróttur, Þristur og Þrenna.  Að sögn Guðbjartar Gunnarssonar bónda heilsast kálfunum og móður þeirra vel. “Okkur var farið að gruna að kýrin væri tvíkelfd því hún var býsna sver og farin að leggja af í geldstöðunni. Þetta er annar burður hjá kúnni en faðir kálfanna er holdanautið Ljúfur (LL 95450) sem er af Limousin kyni og er ættað frá Miðvestur - Frakklandi.”

Guðbjartur segir það alltaf af og til gerast að kýr hjá þeim beri tveimur kálfum en hann minnist þess ekki að þríkelfingar hafi komið þar áður. Líklegustu skýringuna fyrir aukinni frjósemi telur hann vera bætta fóðrun. Á Hjarðarfelli eru 22-24 kýr og um 500 fjár.

 

Innflutningur kúakyns eins og Limousinnautsins Ljúfs fór þannig fram að fósturvísir var fluttur inn til landsins 1994-5 og komið fyrir í kú sem elur nautið sem síðan er notað til sæðistöku í einangrunarstöðinni í Hrísey. Þaðan er það sent til áframhaldandi dreifingar á sæðingarstöð BÍ á Hvanneyri.  Jón Viðar Jónmundsson, nautgriparæktarráðunautur BÍ sagði í samtali við Skessuhorn að ekki væri sérstaklega skráð hjá Bændasamtökunum tíðni þríkelfinga og því talsverð vinna að finna nákvæmar tölur um slíkt. Hann segir þríkelfinga þó vera afar fátíða en þó ekki einstök tilfelli. Áætlar hann að tíðnin gæti verið ein kýr annaðhvert ár eða jafnvel ein á ári að jafnaði. Jón Viðar segir að sú staðreynd að um blendingsræktun sé að ræða auki líkur á að aukin frjósemi geri vart við sig.

 

Ólafur Dýrmundsson ráðunautur BÍ hefur haldið til haga ýmsum óvenjulegum tilvikum um burð og köstun hjá íslenskum búfénaði. Hann segir að þríkelfingar séu afar sjalfgæfir en nú sé e.t.v. ástæða til að rannsaka nánar frjósemisþátt íslenska kúastofnins enda sé hún ein af sérstöðum stofnsins. “Hugsanlega eru í íslenska kúastofninum erfðatengsl líkt og í hinum þekktu genum sauðkindarinnar sem nefnd hafa verið Þokugenin, og upprunin eru í Hornafirði og Lóugenunum, sem upprunin eru í Þingeyjarsýslum. Það er staðreynd að fóðrun búfénaðar er að batna og þar af leiðandi eru vaxandi líkur á að frjósemi nái sér á strik hjá kúm rétt eins og gerst hefur með íslensku sauðkindina,” sagði Ólafur.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is