17. nóvember. 2008 02:13
Ef síldarbátarnir væru enn af sömu stærð og í kringum miðja síðustu öld þegar síldin var aðalútflutningsverðmæti þjóðarinnar, væri sjálfsagt þéttur skógur siglutrjáa milli fjöru og skerja við Stykkishólm. Upp á síðkastið hafa stóru síldarskipin verið að veiða upp við fjörur í Hólminum. Blaðamaður Skessuhorns renndi niður í nýbyggða hverfið við Hjallatanga sl. föstudag, þar sem að skipin voru að veiða rétt fyrir utan. Það voru þrjú skip sem voru að veiðum á þessum tíma, síðdegis á föstudag; Júpiter sem var orðinn hálffullur, Börkur frá Norðfirði og Samherjaskipið Baldvin Þorsteinsson. Kristján Lárentsínusson sem býr í fremsta húsinu við Hjallatangann, á þrjátíu og einum, var líka að mynda skipin. Hann sagði að þau væru fljót að fylla sig þarna fyrir utan. Daginn áður hafi verið tvö skip á veiðum og það hefði ekki tekið þau nema fjóra tíma að fylla sig.