Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
19. nóvember. 2008 01:06

Lífsval smalar ekki á lögbundnum smaladögum

Horft yfir Norðurárdal, Sveinatunga næst.
Ljósm. Mats Wibe Lund
Erfiðlega hefur gengið að hreinsmala lönd í ofanverðum Norðurárdal í Borgarfirði í haust þar sem Lífsval, eigandi jarðarinnar Sveinatungu, hefur ekki smalað til skilarétta og ekki sinnt lögbundnum álögðum smaladögum eins og aðrir landeigendur gera. Bændur og forsvarsmenn afréttarfélaga eru reiðir landeigendum sem þverskallast að sögn við að hlíta settum reglum. Lífsval er stærsti jarðaeigandi landsins og á meðal annars þrjár jarðir í Norðurárdal. Fyrirtækið er einkahlutafélag í eigu fjársterkra aðila sem hóf fyrir nokkrum árum að kaupa upp jarðir víða um land sem gjarnan fylgja góð hlunnindi, t.d. til veiði- og vatnsréttinda, auk jarða með framleiðslurétt í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu þó að það eigi ekki við í tilfelli Sveinatungu. Talið er að Lífsval eigi á annað hundrað jarðir um landið.

Borgfirðingar og Dalamenn hafa í haust og fram á vetur verið að heimta fé af þessu svæði sem meðal annars er rakið til þess að ekki hafa allar jarðir verið smalaðar samtímis á lögbundnum smaladögum. “Flestallir landeigendur hér um slóðir hafa í haust unnið á metnaðarfullan hátt að smölun á þessu svæði. Það er afskaplega slæmt því kindurnar finna sér svona “smugur” og leita þangað. Því hreinsmalast aldrei við slíkar aðstæður,” segir Sverrir Guðmundsson bóndi í Hvammi en hann er jafnframt formaður sameinaðrar afréttarnefndar Borgarhrepps og Norðurárdals. Fé hefur verið að heimtast á þessu svæði í tugatali í haust og nýlega heimtust t.d. þrjár geitur á Dýrastöðum, en þær voru línubrjótar ættaður úr Saurbæ í Dölum, og eru taldar hafa haldið sig í Sveinatungulandi þegar aðliggjandi jarðir og afréttir voru smalaðir í haust. Geiturnar, sem og öðrum línubrjótum, er umsvifalaust fargað. Áætlað er að enn sé að finna á bilinu 60-80 fjár á jörðunum Sveinatungu og Hlíð, sem er eyðijörð milli Sveinatungu og Fornahvamms og er í eigu Vegagerðarinnar. Ekki síst er bagalegt að fé gangi enn laust þar sem sauðfjárslátrun er nú lokið.

 

Kristján Axelsson, formaður afréttarnefndar Þverárréttarafréttar er óhress með ástand mála á svæðinu líkt og Sverrir í Hvammi. “Þetta er bagalegt fyrir eigendur aðliggjandi jarða sem sífellt þurfa að smala lönd sín. Þá er búið að taka hliðgirðingar við vegristar á þjóðveginum og því kemst fé inn á afréttinn frá þessum jörðum. Það hefur aldrei tekist eins vel og í haust að hreinsa afréttinn og því eru það sérstök vonbrigði að eigendur jarða sem eiga land að afréttinum gangist ekki fyrir að smala og sinna þannig lögbundnum skyldum sínum,” segir Kristján.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is