Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
20. nóvember. 2008 02:10

Glæsileg og falleg rokkópera í Hólminum

Rokkóperan Jesús Kristur dýrlingur sem frumsýnd var í félagsheimilinu í Stykkishólmi sl. miðvikudag fær dúndrandi móttökur og er vel sótt. Blaðamaður Skessuhorns var viðstaddur sýninguna sl. föstudag, sem var sú önnur í röðinni, leikhúsið var troðfullt þrátt fyrir að á sama tíma væri körfuboltaleikur þar sem Hólmarar létu sig heldur ekki vanta. Það verður ekki annað sagt en að líf sé í samfélaginu í Hólminum og fólk taki þátt í því sem þar er að gerast.

Undirritaður var einmitt staddur inni í söluskálanum rúmum klukkutíma fyrir sýningu þegar sjálfur Jesús birtist þar að kaupa nokkra matarbakka, sjálfsagt ekki fisk og brauð til að metta lýðinn, heldur eitthvað af grillinu. Svo kom sýningin.

Fyrirfram hafði verið lýst fyrir blaðamanni hvernig leikhópurinn sér sjálfur um að reisa leiksviðið og var hann gríðarlega fljótur að því, eins og þaulvanur byggingarflokkur. Ótrúleg einingasmíði þarna á ferðinni og það verður að segjast að arkitektúrinn hjá Guðjóni Sigvaldasyni leikstjóra við hönnun sviðs og leikmyndar er frábær.

 

Til að gera langa sögu stutta þá er þessi uppfærsla Leikfélagsins Grímnis og leiklistarvals Grunnskóla Stykkishólms glæsileg. Mér varð hugsað til þess meðan á sýningu stóð hversu Stykkishólmur og nágrennið til Grundarfjarðar, þaðan sem hluti leikenda kemur, er ríkt samfélag. Það er ómetanlegt að hafa allt þetta unga fólk heima að vetrinum, sem er að gera þessa skemmtilega og frábæru hluti, bæjarbúum til skemmtunar og um leið safna í sjóðinn dýrmæta á lífsleiðinni. Það hlýtur að gefa ungum leikurum, söng- og tónlistarfólki gríðarlega mikið að taka þátt í svona sýningu. Síðan er það hópurinn stóri sem er á bak við sýninguna, svo sem búninga- og ljósahönnuðir. Mér skilst að konurnar hafi sumar verið að sauma fram á morgun, enda greinilegt að mikið er lagt í búningana ekki síður en annað við sýninguna.

 

Það er ekkert hægt að segja annað en gott um Jesús Guð dýrling í Hólminum. Tónlist og söng er komið vel til skila, maður er í bítinu allan tímann. Leikurinn er líka mjög góður og skemmtilegt að sjá hvernig krakkarnir takast á við hlutina. Það er rokkað á barmi himnaríkis, æði lýðsins kemst vel til skila og ekki er laust við að merkja megi skírskotun og ádeilu til nútímans á stöku stað. „Gott í kroppinn“ má heyra á einum stað í texta og það stingur áreiðanlega áhorfandann atriðið þegar Júdas batt endi á líf sitt, en í þetta verða þeir að spá í sem eiga eftir að sjá sýninguna.

 

Hljómsveitin er frábær og söngkraftarnir mjög góðir. Það var ekki mikill kraftur í Jesú til að byrja með, það er Óla Steinari Sólmundarsyni sem var í þessu öðru höfuðhlutverki leiksins. Mér kom í hug að það væri sökum þess að hann hefði borðað of mikið fyrir sýninguna. En líklega átti þetta bara að vera svona. Jesús var líka einhvern tíma byrjandi og Óli Steinar sýndi það svo að hann réði fyllilega vel við þetta hlutverk, eins og reyndar allir aðrir og sérstaklega var Júdas í sköpun Mattíasar Þorgrímssonar öflugur.

 

Til hamingju Hólmarar með þessa glæsilegu og fallegu sýningu og rosalega eigið þið gott að eiga þetta stóra og frábæra hús. Það rúmar mjög vel þessa sýningu og umgjörð sem Guðjón Sigvaldason leikstjóri mótaði á meistaralegan hátt.

 

Þórhallur Ásmundsson

 

 

Næstu sýningar verða:

 

Föstudagskvöld kl. 22 (Miðnætursýning ) - Tilvalið fyrir fyrirtæki og/eða stærri hópa að gera sér glaðan dag og þétta hópinn og mæta á miðnætursýningu á þessa frábæru sýningu

 

Sunnudag kl. 14

 

Hópar (10manns eða fleiri) fá 20% afslátt af heildarverði, en almennt miðaverð er 2500kr.

 

Nánari upplýsingar og miðasala er í síma 863-0078 eftir klukkan 16 á daginn.

 

Við viljum einnig benda á ný uppgert Hótel Stykkishólmur þar sem jólahlaðborð og gistimöguleikar eru opnir.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is