21. nóvember. 2008 07:27
Í kvöld, föstudaginn 21. nóvember, verður einleikurinn Brák eftir Brynhildi Guðjónsdóttur sýndur í 90. sinn í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Brák var frumsýnd 5. janúar sl. og hefur frá upphafi notið gífurlegra vinsælda. Uppselt hefur verið á nánast allar sýningar. Fyrir Brák hlaut Brynhildur Grímuna, leiklistarverðlaunin 2008, sem besti leikari í aðalhlutverki og besta leikskáld. Auk þess hlaut hún í vikunni ásamt Benedikt Erlingssyni og Kjartani Ragnarssyni styrk úr Stefaníusjóðnum fyrir framlag til leiklistar. “Sýningar á Brák og Mr. Skallagrímssyni eftir Benedikt Erlingsson munu halda áfram eftir áramót enda ekkert lát á aðsókninni, segir í tilkynningu frá Landnámssetrinu. Sýningar á Mr. Skallagrímssyni nálgast nú 200 en sú sýning er nú að hefja sitt þriðja leikár. Benedikt hlaut einnig Grímuna 2007, sem besti leikari í aðalhlutverki og besta leikskáld.