25. nóvember. 2008 11:09
Gengið hefur verið frá samningi þess efnis að Fasteignamiðstöðin í Reykjavík hefur keypt rekstur fasteignasölunnar Domus í Borgarnesi. Að sögn Maríu Magnúsdóttur héraðsdómslögmanns og löggilts fasteignasala verður fasteignasalan í Borgarnesi rekin undir samsettu nafni fyrirtækjanna til næstu áramóta. Magnús Leópoldsson lögg. fasteignasali og starfsfólk hans mun manna starfsstöðina í Borgarnesi en engar breytingar verða á starfsmannahópi Intrum og Pacta sem rekið er í sama húsnæði við Borgarbraut 61 í Borgarnesi. María mun áfram starfa að fasteignasölunni eins og verið hefur en hún kveðst ætla að einbeita sér í auknum mæli að lögmannstörfum fyrir einstaklinga og fyrirtæki á næstunni enda sé fremur lítið að gera í fasteignaviðskiptum um þessar mundir.