27. nóvember. 2008 07:38
“Bubbi Morthens var þarna með einhverja samstöðutónleika um miðjan nóvember og Landssamband bakarameistara ákvað að framleiða brauð í tilefni af því,” segir Sigurgeir Erlendsson, mun betur þekktur sem Geiri í Geirabakaríi í Borgarnesi. Í hillum bakarísins hefur mátt sjá til sölu svokallað samstöðubrauð sem kostar einungis 190 krónur. “Þetta átti að vísu bara að vera til sölu þessa helgi sem samstöðutónleikarnir voru en ég hef haldið þessu áfram. Bakaríin máttu ráða því sjálf hverskonar brauð þetta yrði og ég ákvað að bjóða upp á hnoðað heilhveitibrauð.” Samstöðubrauðið er til sölu alla föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Geiri segir að það verði til sölu eitthvað áfram. “Ég ætla bara að sjá til en reikna með að ég hafi það til sölu í allan vetur.”
Þegar hann er inntur eftir því hvort brauðið rjúki út segir hann að það hafi ekki selst meira en önnur brauð. “Ég hef að vísu ekki auglýst það mikið í blöðunum. Hef bara látið stórt spjald standa hér úti á palli. Fólk hefur sýnt þessu áhuga og er mjög ánægt með framtakið,” segir Geiri að lokum.