Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. febrúar. 2009 10:39

Fjölmenni á fundi um hvalveiðimál

Steingrímur J í ræðustól
Húsfyllir var í Bíóhöllinni á Akranesi í gærkvöldi á opnum fundi um hvalveiðimál. Það var Verkalýðsfélag Akraness og Akraneskaupstaður sem boðaði til fundarins í ljósi ákvörðunar Steingríms J Sigfússonar um að gefa út viðvörun um að hugsanlega yrði afturkölluð reglugerð fyrirrennara hans, Einars Kr. Guðfinnssonar, um leyfi til veiða á 150 langreyðum á ári og 200 hrefnum. Til fundarins voru boðaðir Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra og Steingrímur J Sigfússon sjávarútvegsráðherra. Tveir fyrrnefndu ráðherrarnir mættu ekki. Óhætt er að segja að Steingrímur J hafi á fundinum setið andspænis hátt í 300 fylgjendum hvalveiða og því átt í vök að verjast. Sagðist hann þó hvergi banginn, hann hafi áður mætt andstreymi þegar hann hafi þurft að verja umdeildar ákvarðanir.

Á fundinn voru auk ráðherrans mættir helstu hrefnuveiðimenn landsins, forsvarsmenn LÍU, Hvals hf., gamlir hvalskurðarmenn, verkalýðsforingjar og almenningur sem telur að ákvörðun um hvalveiðar eigi að standa. Fulltrúar fundarboðenda héldu framsögur en eftir það fluttu núverandi og fyrrverandi sjávarútvegsráðherrar tölu og þingmenn kjördæmisins útskýrðu sína afstöðu til hvalveiða. Allir þingmenn kjördæmisins voru mætti að undanskildum Karli V Matthíassyni frá Samfylkingunni.

 

Gríðarleg atvinnusköpun

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA sagði í framsögu sinni að skelfingarástand væri að verða á vinnumarkaði. 13.500 manns væru orðnir án atvinnu í landinu og spáð væri að upp undir 20 þúsund manns yrðu á þeim lista með vorinu. Þar af eru hátt í fimmta hundrað þegar án atvinnu á Vesturlandi. Lýsti hann þeirri innspýtingu sem hvalveiðar myndu hafa á atvinnulífið á svæðinu yrðu þær heimilaðar. Sagði hann Steingrím J Sigfússon verða að meta það við eigin samvisku hvernig hann ætlaði að svara atvinnulausu fólki sem væri að upplifa ótta og skelfingu samhliða stöðu sinni. “Hvernig getur ráðherra við þessar aðstæður leyft sér að slá hugsanlega 300 störf út af borðinu með því að koma í veg fyrir hvalveiðar,” spurði Vilhjálmur.

Í stuttri en snarpri ræðu sagði Gísli S Einarsson, bæjarstjóri við ráðherra; “Engan gunguskap Steingrímur.” Sagði hann það alltaf hafa verið vilja Akraneskaupstaðar að hvalveiðar hæfust að ný og á því hefði engin breyting orðið.

 

Varlega farið

Gísli Víkingsson sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun fór yfir þær forsendur sem liggja að baki veiðiráðgjöf Hafró. Sagði hann að ekki væri í þessari deilu verið að þrátta um fjölda dýra sem mætti veiða enda væri áætlað að í stofni langreyða hér við land væru 20-25 þúsund dýr og í hrefnustofninum a.m.k. 10-15 þúsund dýr. Því væri verið að ráðleggja mjög hóflega tölu í fjölda dýra sem mætti veiða.

 

Orðspor og áhrif á aðrar greinar

Steingrímur J Sigfússon, sjávarútvegsráðherra útskýrði forsendur þess að hann hefði ákveðið þegar hann tók við ráðuneytinu að skoða betur hvað lægi að baki reglugerð fyrirrennara síns. “Einar Kristinn gaf út bindandi ákvörðun út frá hæpnum og litlum forsendum. Við munum taka okkur tíma til að fara yfir málið og kalla til sérfræðinga og hagsmunaaðila. Því gaf ég út viðvörun til hagsmunaaðila um að hugsanlega yrði þessari ákvörðun hnekkt. Steingrímur sagði hvalveiðar einar og sér góðar m.t.t. verðmætasköpunar, en áhrif þeirra á önnur störf, svo sem ferðaþjónustu, yrðu hugsanlega of neikvæð til að hægt væri að réttlæta veiðarnar. Benti hann í því samhengi á að hvalastöðin á Húsavík væri að skapa 100 störf við hvalaskoðun. “Við munum meta veiðar á hval út frá orðspori og áhrifum á aðrar atvinnugreinar í landinu.” Sagði hann vítavert að ráðherra í starfsstjórn gerði slíka hluti eins og Einar Kr Guðfinnsson þegar hann gaf út reglugerðina.

 

Sölumál kjötsins í lagi

Næstur í púlt var Einar Kr. Guðfinnsson fv. sjávarútvegsráðherra. Sagði hann að gengið hefði verið varlega fram í fjölda á dýrum sem veiða mætti m.t.t. veiðiráðgjafar Hafró. “Þetta mál hefur haft tíu ára aðdraganda og hér er um að ræða skynsamlegar veiðar og sjálfbæra nýtingu auðlindar.” Sagði hann að ekki hefði verið vafi á því í fyrri ríkisstjórn að reglugerð til hvalveiða væri á stjórnskipulegu forræði sjávarútvegsráðherra. Sagðist hann hafa viljað taka þessa ákvörðun fyrr en ástæða þess að það var ekki gert hafi verið óvissa með sölumál kjötsins, en úr því hefur nú ræst. Benti Einar á að vilji til hvalveiða væri hjá meirihluta þjóðarinnar og hefði málið öruggan þingmeirihluta á Alþingi kæmi þar til atkvæðagreiðslu um málið.

 

Rétt ákvörðun

Sturla Böðvarsson, fyrsti þingmaður NV kjördæmis studdi ákvörðun Einars Kr Guðfinnssonar af heilum hug. Sagði hann það hárrétta ákvörðun að leyfa hvalveiðar. Sturla minnti á skýrslu sem hann lét vinna þegar hann var ráðherra ferðamála árið 2004 sem leiddi í ljós að hvalveiðar í vísindaskyni árið 2003 hefði ekki haft nein neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í landinu. Benti hann á tölur um stöðuga fjölgun ferðamanna þrátt fyrir að hér væru stundaðar hvalveiðar. Sagðist Sturla hafa miklu meiri áhyggjur af þeirri ákvörðun að draga úr landkynningu erlendis. Slíkt hefði skaðlegri áhrif á ferðaþjónustuna en sjálfar hvalveiðarnar.

 

Allir fylgjandi veiðum

Guðbjartur Hannesson alþingismaður Samfylkingar sagðist alltaf hafa stutt hvalveiðar enda væri með þeim verið að nýta hvalinn eins og aðrar auðlindir. Sagði hann ákvörðun um útgáfu veiðileyfa hafi verið tekna of seint og gagnrýndi fv. sjávarútvegsráðherra fyrir það. Þá skoraði Guðbjartur á Kristján Loftsson hjá Hval hf. að þegar til veiðanna kæmi að frysting hvalaafurða færi fram á Akranesi en ekki í Hafnarfirði.

Jón Bjarnason þingmaður VG lýsti þeirri skoðun sinni að hvalur væri hluti af auðlind sem bæri að nýta í sátt við vísindasamfélagið og umhverfið allt. Hinsvegar varði hann þá ákvörðun flokksformanns síns að taka sér tíma til að skoða forsendur reglugerðarinnar um hvalveiðar. Fordæmdi Jón arðrán eins og gerðist með landsel þegar skotveiðileyfi voru gefin út á hann.

Magnús Stefánsson þingmaður (B) lýsti einörðum stuðningi sínum við veiðar á hval.

Guðjón Arnar Kristjánsson alþingismaður FF skoraði á Steingrím J að láta ákvörðun um hvalveiðar standa enda um eðlilega náttúrunýtingu að ræða. Benti hann á ójafnvægið í lífríkinu t.d. með friðun hrefnu sem væri að éta mikið magn af þorski og ýsu. “Ferðamönnum hefur fjölgað á síðustu árum og hvalveiðar vinna ekki gegn ferðaþjónustu, heldur viðhalda og efla atvinnu í landinu,” sagði Guðjón. Í sama streng tók flokksfélagi hans Kristinn H Gunnarsson sem sagði skýran þingmeirihluta fyrir veiðum á hval. Varaði hann Steingrím J við að draga ákvörðunina til baka því þá gæti hann verið viss um að tillaga um vantraust á ríkisstjórina yrði borin upp og samþykkt á Alþingi.

Herdís Þórðardóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði að ekki skipti máli hvenær ákvörðun um að hefja á ný hvalveiðar hafi verið tekin, heldur sú staðreynd að búið var að taka ákvörðunina.

 

Vikur í ákvörðun

Eftir framsöguræður var opnað fyrir fyrirspurnir og voru margir sem lýstu vanþóknun sinni á ákvörðun núverandi sjávarútvegsráðherra. Stór orð féllu svo sem gunguskapur og hræðsla við innantómar hótanir ferðaþjónustuaðila og umhverfissinna. Í andsvörum Steingríms kom m.a. fram að hann hygðist ekki taka sér langan tíma til að fara yfir forsendur reglugerðarinnar þó líklega megi telja það í vikum frekar en dögum hvenær ákvörðun hans liggur fyrir.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is