04. mars. 2009 07:40
Á morgun, fimmtudag, verður forlagsverslun bókaútgáfunnar Uppheima opnað á nýjum stað. Tekist hefur samkomulag á milli Uppheima og HVER – endurhæfingarhúss um að þar verði forlagsverslun á opnunartíma hússins frá klukkan 10-16 alla virka daga að Kirkjubraut 1 á Akranesi. Í tilefni þessara flutninga verður haldin mikil brunaútsala næstu daga á bókum forlagsins. “Þar verða meðal annars í boði nýjar bækur á yfir 50% afslætti og eldri titlar, þar á meðal árbækur, á verði sem ekki hefur sést áður,” segir Kristján Kristjánsson útgefandi í samtali við Skessuhorn. Með þessu segist Kristján einnig vera að styðja við starfsemi HVER, þar sem endurhæfingarsmiðjan fær góð sölulaun fyrir að sjá um forlagsverslunina.