04. mars. 2009 04:05
Þrátt fyrir að drengjaflokkur Skallagríms sé efnilegur urðu strákarnir að láta sér lynda allstórt tap í bikarúrslitaleik gegn Fjölni í Keflavík um síðustu helgi. Lokatölur urðu 99-58 Fjölnismönnum í vil, þar sem Sigurður Þórarinsson var atkvæðamestur hjá Skallagrími með 30 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Ægir Þór Steinarsson hjá Fjölni var valinn maður leiksins með 18 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar.
Fjölnismenn hófu leikinn með miklum krafti, komust í 13-2 og það var eins og Borgnesingar væru hreinleg ekki mættir á svæðið. Þegar líða tók á fyrsta leikhluta komust Skallagrímsmenn betur inn í leikinn og með Sigurð Þórarinsson fremstan í flokki tókst þeim að minnka muninn í 24-17 við lok fyrsta leikhluta.
Skallagrímsmenn komu vel stemmdir í annan leikhluta, ákveðnir á að bæta stöðuna frekar. Sigursteinn Hálfdánarson var gríðarlega sterkur í vörninni, greinilega framtíðarleikmaður. Skallagrími tókst að halda í við Fjölnir allt fram undir hálfleik en upp úr því dró í sundur með liðunum.
Stigahæstir hjá Skallagrími voru Sigurður Þórarinsson með 30 stig, Sigursteinn með 10 stig og Trausti Eiríksson með 8 stig. Hjá Fjölni voru þrír piltar stigahæstir með tæp tuttugu stig hvor, þar á meðal fyrrnefndur Ægir Þór.