13. mars. 2009 03:02
Velta í raftækjaverslun dróst saman um 52,9% á föstu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 28,9% á breytilegu verðlagi. Á síðasta ári minnkaði velta raftækjaverslana töluvert að raunvirði. Veltan í janúar síðastliðnum var þannig 45,2% minni en í janúar í fyrra. Þetta kemur fram í rannsókn Rannsóknaseturs verslunarinnar á Bifröst. Þar segir einnig að dagvöruverslun hafi dregist saman um 13,8% á föstu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð árið áður. “Þetta er óvenjumikill samdráttur í veltu dagvöruverslunar á milli ára og hefur aðeins einu sinni áður mælst svo mikill samdráttur, en það var í desember síðastliðnum. Velta dagvöruverslunar jókst á breytilegu verðlagi um 13,5% í febrúar miðað við febrúar í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 31,7% á einu ári samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar.” Sjá nánar skýrslu Rannsóknamiðstöðvarinnar á www.bifrost.is