26. mars. 2009 09:48
Snæfell er algjörlega komið upp að vegg og Grindvíkingar með vænlega stöðu, eftir að Suðurnesjamennirnir náðu að sigra í miklum spennuleik í Hólminum í gærkveldi. Staðan er nú 2:0 fyrir Grindavíkingum og nægir þeim sigur á heimavelli í þriðja leiknum sem fram á laugardaginn til að komast í úrslitaviðureignina í Iceland Express deildinni, líklega móti KR-ingum sem einnig eru með vænlega stöðu gegn Íslandsmeisturum Keflvíkinga.
Mikið fjör og kraftur var í Hólminum í gærkveldi og leikurinn lengst af hnífjafn. Gestirnir leiddu með einu stigi eftir fyrsta leikhluta, en tóku góðan sprett rétt fyrir leikhlé og höfðu átta stiga forskot í hálfleik 44:52.
Snæfellingar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og tókst að jafna leikinn og komast yfir í stöðunni 65:64. Þeir höfðu tveggja stiga forskot eftir þriðja leikhluta, 69:67, en Gestirnir náðu síðan að jafna 72:72 og eftir það höfðu þeir eilítið frumkvæði alveg fram á síðustu sekúndur leiksins. Snæfell stóð þá frammi fyrir því að þurfa að jafna leikinn með þriggja stiga skoti, en það geigaði, þannig að Grindvíkingar stóðu uppi sem sigurvegarar, 81:84.
Sigurður Þorvaldsson var mjög öflugur í liði Snæfells og þeirra besti maður, skoraði 27 stig. Hlynur Bæringsson var líka gríðarlega sterkur með 18 stig og fjölda frákasta. Jón Ólafur Jónsson gerði 9 stig, sem og Magni Hafsteinsson, Lucious Wagner 8, Slobodan Subasic 7 og þeir Gunnlaugur Smárason og Atli Rafn Hreinsson tvö stig hvor.
Snæfellsliðið tók samtals 24 fráköst í leiknum á móti 16 hjá Grindavík. Áhorfendur voru á fimmta hundrað.