Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. apríl. 2009 08:36

Vatnsverksmiðja í sátt við umhverfið og eykur atvinnu

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri
Að beiðni hagsmunaaðila verður viðtal við Kristinn Jónasson, bæjarstjóra í Snæfellsbæ, sem birtist í síðasta tölublaði Skessuhorns birt hér í heild sinni. Þar er rætt um vatnsverksmiðjuna í Rifi og önnur atvinnumál í Snæfellsbæ.

 

Málefni eigenda væntanlegrar vatnsverksmiðju Iceland Glacier Product í Rifi á Snæfellsnesi hafa talsvert verið til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu. Sæta þeir m.a. rannsókn kanadíska fjármálaeftirlitsins. Í umfjöllun nokkurra fjölmiðla að undanförnu hafa forsvarsmenn Snæfellsbæjar verið gagnrýndir meðal annars fyrir að gefa ekki upp innihald samningsins um vatnsréttinn og lengd samningsins. Fram til þessa hafa þeir litlu svarað þeim fjölmiðlum sem sóst hafa eftir þessum upplýsingum.

Bjartsýni ríkir í Snæfellsbæ um að vatnsverksmiðjan verði að veruleika og að staðið verði við þá samninga sem gerðir hafa verið. Ljóst sé að verksmiðjan muni skapa tugi starfa og því séu verulegir hagsmunir í húfi að ekki verði bakslag í fyrirætlunum með uppbygginguna. Þegar er byrjað að byggja verksmiðjuhúsið sjálft og leggja vatnslögn að svæðinu. Kristinn segir að hagur Snæfellsbæjar til lengri tíma verði fyrst og fremst þær útsvarstekjur sem verða til hjá fólkinu sem mun vinna við vatnsverksmiðjuna. Einnig aðrar tekjur eins og til dæmis fasteignagjöld og hafnargjöld auk afleiddra starfa sem af verksmiðju sem þessari hlýst.  “Ég fullyrði að flest allir íbúar Snæfellsbæjar eru ánægðir með að vatnsverksmiðjan skuli rísa í Rifi og þeir bíða spenntir eftir að hún taki til starfa,” segir Kristinn. Þá er rætt um hvernig ríkið hefur staðið að öflun starfa í sveitarfélaginu á undanförnum árum og segir Kristinn að í hvert sinn sem slíkt gerist sé nánast litið á það sem ölmusa af stjórnmálamönnum í Reykjavík. Hann heldur því fram að ekki hafi verið staðið við fyrirheit og nefnir hann kyrrstöðu í uppbyggingu starfsemi Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem dæmi. “Okkur hefur farnast best þegar við höfum sjálf stuðlað að uppbyggingu atvinnustarfsemi á okkar forsendum og án beinnar aðkomu ríkisvaldsins. Þannig verður það einnig í málefnum vatnsverksmiðjunnar,” segir hann.

 

Könnuðum fjárfestana

En fyrst að málefnum væntanlegrar vatnsverksmiðju í Rifi. Kristinn segir að núverandi samningur um vatnsréttindi sé fjórði samningurinn sem Snæfellsbær gerir um vatn á svæðinu. Þann fyrsta gerði að vísu þáverandi Neshreppur utan Ennis árið 1994. “Allir eru þessir samningar nokkuð svipaðir þó segja megi að sá sem nú er sé sá besti fyrir Snæfellsbæ, meðal annars vegna þess að inni í honum eru endurskoðunarákvæði er varða bæði verð og magn vatns.  Allir þessir samningar hafa verið til 95 ára án athugasemda hingað til,” segir Kristinn, en gagnrýnisraddir hafa einmitt heyrst um lengd samningsins við IGP.

Aðspurður um málefni fjárfestanna segir Kristinn: “Áður en við gengum til samninga við Otto Spork og Sextant Capital þá fékk lögmaður Snæfellsbæjar Deloitte til að kanna þessa aðila í Kanada. Könnunin fólst í tvennu. Annars vegar að kanna hvort eitthvað kæmi fram misjafnt gagnvart yfirvöldum og hins vegar hvort eitthvað misjafnt hefði komið í fjölmiðlum. Ekkert neikvætt kom í ljós.  Þetta var svokölluð fyrsta stigs könnun og sáum við ekki ástæður til að kanna málið frekar því það hefði kostað Snæfellsbæ töluverðar fjárhæðir. Sáum heldur ekki ástæðu til þess þar sem ekkert kom í ljós við fyrstu skoðun sem krafðist þess.”

 

Ráðstöfum brotabroti af vatninu

Krisinn segir að Snæfellsbær sé ekki að selja neina vatnsauðlind eins og ranglega hafi verið haldið fram í fjölmiðlum, heldur felst í samningnum að sveitarfélagið lofar að selja ekki annarri vatnsverksmiðju aðgang að þessari tilteknu vatnslind.  “Úr þessari vatnslind munu þeir fá allt að 2% af því vatni sem í henni er, en í dag rennur þetta vatn allt til sjávar, fáum eða engum til gagns. Þá er rétt að minna á að í Snæfellsbæ er gnægt vatnslinda og skipta þær tugum. Auk þeirra fannst nýlega við borun á heitu vatni kaldasta neysluvatnshola landsins sem skilar 30 lítrum á sekúndu af 0,2-0,5 gráðu köldu vatni, þannig að ekki er skortur á vatni hér í Snæfellsbæ.  Þá er ákvæði í samningnum við IGP um það að allur annar atvinnurekstur og heimili í Snæfellsbæ njóti alltaf forgangs ef vatn verður af skornum skammti. Kæmi það til dæmis upp að menn vildu reisa hér gagnaver þá gætum við nýtt sama svæði og selt mönnum vatn úr þessari vatnslind því nægt er vatnið. Hvað sem öðru líður finnst mér standa uppúr í þessu máli að það er skynsamlegt að vatnið sem hér er til verði okkur til framdráttar. Ekki síst til að skapa störf og auka lífsgæðin bæði fyrir íbúa Snæfellsbæjar og Íslendinga alla, ekki veitir af að mínu mati,” segir Kristinn. 

 

Okkar að skapa skilyrði fyrir atvinnulífið

Eins og flestir vita þá hefur sala á vatni ekki gengið áfallalaust hingað til. Kristinn fagnar því að tekist hefur að gera samning um nýtingu vatnsréttinda í Snæfellsbæ.  “Við erum ekki þeir einu sem hafa gert slíka samninga og ef ég man rétt þá hafa Ísafjarðarbær, Hafnarfjarðarbær, Hornafjörður og Fjarðarbyggð gert slíka samninga og ekki hefur verið gerður neinn ágreiningur um það.  Auk þess seldi Ölfushreppur (Þorlákshöfn) jörð til fyrirtækis í eigu Jóns Ólafssonar þar sem hann hefur nú reist vatnsverksmiðju. Tilgangur Snæfellsbæjar með samningi sem þessum er fyrst og fremst að skapa ný störf í bæjarfélaginu og ef áformin ganga eftir og verksmiðjan kemst í fullan rekstur þá gætu skapast 50-70 störf auk afleiddra starfa.  Það hlýtur að vera skylda allra sem sveitarfélögum stýra að reyna að gera allt til að skapa störf og bæta mannlífið á hverju stað. Við í Snæfellsbæ fórum þá leið að gera þetta sjálfir því ekki hefur okkur gengið svo vel að fá opinber störf á svæðið eða opinberar framkvæmdir.  Við erum alla daga með hugann við það að reyna að sjá út hvað við getum gert til að skapa betra mannlíf á svæðinu. Eitt af því er að reyna að skapa fjölbreytt störf og þá er æskilegast að þau verði til hjá framtakssömu fólki. Bæjarfélagsins er hinsvegar að skapa jarðveginn fyrir þetta fólk. Þar að auki passar þessi rekstur vel að umhverfisstefnu Snæfellsbæjar þar sem ég tel að við séum í fararbroddi sveitarfélaga hér á landi,” segir Krisinn.

 

Erum traustsins verðir

Reynt hefur verið að gera það tortryggilegt að um samninginn milli Snæfellsbæjar og Iceland Glacier Product ríki trúnaður. Hvað segir Kristinn um þær gagnrýnisraddir?

“Þetta er mjög einkennilegt þar sem í samningnum eru fjárhæðir sem rétt þykir að trúnaður ríki um vegna viðskiptalegra sjónarmiða.  Ég veit ekki betur en að þessi regla sé í gildi varðandi orkusamninga stóriðjufyrirtækja og einkennilegt að það eigi annað að gilda um sveitarfélög en ríkið. Af hálfu Snæfellsbæjar er í sjálfu sér ekkert að fela en við virðum þá samninga sem við höfum gert og leggjum mikla áherslu á að við séum traustsins verðir.  Samningurinn er að mínu mati hagstæður fyrir báða aðila og þannig eiga samningar að vera að báðir aðilar hafi hag af þeim.”

 

Þeir hafa staðið við sitt

Varðandi efndir samningsins milli Snæfellsbæjar og Iceland Glacier Product vill Kristinn ítreka að að IGP hefur á allan hátt staðið við allar greiðslur til Snæfellsbæjar og eru þær á annað hundruð miljóna króna, meðal annars í formi gatnagerðargjalda. “Vatnsverksmiðjan borgar öll gjöld eins og önnur fyrirtæki í Snæfellsbæ og fær enga afslætti.  Snæfellsbær hefur ekki lagt út neinar peningagreiðslur vegna þessa verkefnis. Við höfum hinsvegar lagt fram mikla vinnu við undirbúninginn. Bæjarstjóri, bæjarlögmaður og yfirmaður tæknideildar hafa unnið þá vinnu að mestu leyti og mætti reikna þá vinnu til peninga. Auk þess hafa oddvitar þeirra lista sem í bæjarstjórn eru lagt mikla vinnu í verkefnið meðal annars við samningagerð, en þeir hafa ekki fengið neinar sérstakar greiðslur fyrir þá vinnu.”

 

Þverpólitísk samstaða

Kristni sárnar að sjá að menn haldi því fram að forsvarsmenn Snæfellsbæjar séu landráðamenn með því að semja um sölu á vatni úr einni af vatnslindum bæjarins. “Þetta fullyrðir fólk án þess að vita út á hvað samningurinn gengur. Þessu fólki vil ég benda á að bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur ávalt haft hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og rétt að geta þess að þverpólitísk samstaða er um málið í bæjarstjórn.  Einnig er rétt að rifja það upp að Snæfellsbær var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að fá viðurkenningu frá Staðardagskrá 21 fyrir störf sín að umhverfismálum og nú á liðnu ári fékk Snæfellsbær ásamt sveitarfélögunum á Snæfellsnesi vottun frá Green Globe sem fyrsta landsvæðið á Norðurhveli jarðar sem vistvænt ferðamannasvæði.”

Varðandi samninginn um vatnsréttindin til IGP vill Kristinn, svona rétt til að ramma málið inn, ítreka að tilgangur Snæfellsbæjar sé að skapa fleiri störf og fjölbreyttari í byggðarlaginu. “Okkar hagur verður fyrst og fremst þær útsvarstekjur sem verða til hjá fólkinu sem mun vinna við verksmiðjuna. Einnig aðrar tekjur eins og fasteignagjöld, hafnargjöld svo eitthvað sé nefnt.  Ég fullyrði að flest allir íbúar Snæfellsbæjar eru ánægðir með að vatnsverksmiðja skuli rísa í Rifi og þeir bíða spenntir eftir að fjölbreytni atvinnulífs aukist og að verksmiðjan taki til starfa.”

 

Okkar frumkvæði gagnast betur

Talið berst að frumkvæði. Telur Kristinn afdráttarlaust að reynslan hafi kennt mönnum það í Snæfellsbæ að farsælla sé að treysta á eigið frumkvæði, en frumkvæði opinberra aðila, þegar kemur að atvinnusköpun. “Mig langar að nefna nokkur dæmi sem skýra hvernig okkur hefur gengið að fá ríkisvaldið til að byggja upp með okkur. Í fyrsta lagi nefni ég að Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001 með miklum og hástemmdum áformum hins opinbera sem ekki hafa gengið eftir. Nú síðast voru allar fjárveitingar til framkvæmda við Þjóðgarðinn Snæfelljökul skornar niður í núll, á meðan Þjóðgarðurinn á Þingvöllum fékk rúmar 80 milljónir króna og nýstofnaður Vatnajökulsþjóðgarður 350 milljónir. Ég spyr bara; hvers eigum við að gjalda?  Þá get ég bent á að Snæfellsbær hafði forgöngu um stofnun Varar, sjávarrannsóknaseturs við Breiðafjörð og þar eru nú 6-8 störf. Þá stóðum við að stofnum Átthagastofu sem við bindum miklar vonir við, svo ég nefni fleiri dæmi. Þetta höfum við allt gert sjálf í Snæfellsbæ því lítið hefur gengið að bíða eftir að ríki færi störf inn í bæjarfélagið.”

 

Litið á opinber störf út á land sem ölmusu

Kristinn nefnir einnig að ríkið hefur rekið útibú Hafró til margra ára í Snæfellsbæ lengi vel með einum starfsmanni en nú eru þar þrjú stöðugildi sem fengust eftir marga fundi og mikið streð. “En hvaða krafa var gerð til Snæfellsbæjar? Jú, að við niðurgreiddum húsaleigu forstöðumannsins og við áttum að vera þakklátir fyrir að ríkið setti niður störf í Snæfellsbæ. Var þetta gert til ársins 2007. Ég sæi ríkið gera þessa kröfu til Reykjavíkurborgar með allar þær þúsundir opinberra starfsmanna sem þar búa.  En við þetta höfum við þurft að búa, það er að mönnum finnist það ölmusa að störf á vegum ríkisins séu úti á landi. Þetta er röng hugsun en hefur því miður verið alltof lengi við líði. Um það geta fleiri sveitarstjórnarmenn en ég vitnað. Þess vegna verðum við að bjarga okkur sjálf og berjast af fullu afli, oft var þörf en nú nauðsyn.”

 

Hér þarf líka þróun

Kristinn segist einnig vera orðinn langþreyttur á því viðhorfi sem sér finnist allt of margir sem á höfuðborgarsvæðinu búa hafa til landsbyggðarinnar.  “Ef við ætlum að framkvæma eitthvað, til dæmis í vegagerð, þá má helst ekki hreyfa við nokkrum steini. Náttúran okkar sé svo viðkvæm.  En ef framkvæmdirnar eru á höfuðborgarsvæðinu þá má öllu umturna í nafni uppbyggingar. Nefni ég sem dæmi hraunið milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar sem að mestu leyti er horfið og þá má einnig nefna sem dæmi framkvæmdirnar við Hellisheiðarvirkjun.  Fók verður að skilja að til að byggð verði til staðar í öllu landinu þá þarf fólk sem úti á landi býr jafn mikið á nútímaþjónustu að halda og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Við skiljum þetta sem búum úti á landi og ætlumst til að fólkið sem býr í höfuðborginni geri það einnig.  Þróun lands krefst þess að kostir séu metnir og þá þarf að hafa mannfólkið líka með þegar áhrif einstakra framkvæmda eru metnar. Ég nefni þetta hér til að slá á þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa vegna þess að við höfum nú náð árangri og sýnt frumkvæði í að laða ný fyrirtæki hingað á svæðið. Reynslan hefur einfaldlega sýnt okkur að við þurfum sjálf að berjast fyrir okkar framfaramálum, hvort heldur sem er í þessu tiltekna máli um vatnsverksmiðjuna eða í öðrum,” sagði Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is