Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. apríl. 2009 01:02

SPM var eina fjármálastofnunin sem náði samningum við lánardrottna

Síðastliðinn föstudag staðfesti Fjármálaeftirlitið samkomulag sem tekist hafði milli Sparisjóðs Mýrasýslu annars vegar og allra helstu lánardrottna sjóðsins hins vegar um fjárhagslega endurskipulagningu. Samhliða því tók Nýja Kaupþing við rekstri Sparisjóðs Mýrasýslu og eignaðist allt stofnfé í sjóðnum. Þetta þýðir að rekstur SPM færðist inn í Nýja Kaupþing frá og með síðastliðnum mánudegi og lauk þar með 96 ára sögu Sparisjóðs Mýrasýslu. Fyrir viðskiptavini SPM í Borgarnesi þýðir þetta að þeir eru orðnir viðskiptavinir Nýja Kaupþings en njóta áfram þjónustu sama starfsfólks og þeir eru vanir þar sem útibú Nýja Kaupþings og SPM í Borgarnesi verður sameinað á næstu vikum í eitt. Innlán jafnt sem útlán viðskiptavina SPM færast með þessu yfir til Nýja Kaupþings og verður starfsemin sameinuð í húsnæði SPM við Digranesgötu 2. Útibúið verður eftir sameininguna annað af tveimur stærstu útibúum Nýja Kaupþings, ásamt aðalútibúinu í Reykjavík.

Samhliða þessum breytingum mun Nýja Kaupþing jafnframt eignast dótturfélög SPM, þar með talið Afl Sparisjóð í Skagafirði og Siglufirði og Sparisjóð Ólafsfjarðar. Stefnt er að rekstri þeirra í óbreyttri mynd.

 

Bernhard Þór Bernhardsson
Bernhard Þór Bernhardsson fv. sparisjóðsstjóri hefur verið ráðinn útibússtjóri Nýja Kaupþings í Borgarnesi. Í Skessuhorni sem kom út í dag er ítarlega rætt er við Bernhard um aðdraganda þessara breytinga og hverju þær breyta fyrir viðskiptavini SPM, starfsfólk og héraðið í heild.

 

Sparisjóður Mýrasýslu hefur átt í miklum erfiðleikum fjárhagslega undanfarin misseri eins og Borgfirðingar þekkja vel. Þegar búið er að gera árið 2008 upp í rekstri SPM kemur í ljós að sjóðurinn tapaði hvorki meira né minna en 21 milljarði króna á árinu. Nýtt eigið fé hefði þurft að koma inn fyrir 17 milljarða króna og var enginn tilbúinn að taka þátt í þeirri fjármögnun.

“Með þessari niðurstöðu næst farsæl lausn á vanda sparisjóðsins sem lánardrottnar, viðskiptavinir, starfsfólk og aðrir hagsmunaðilar geta vonandi sætt sig við,” segir Bernhard. Hann hefur verið í fararbroddi við þá samningagerð sem nú eru um garð gengin. Þeir bankamenn sem Skessuhorn hefur rætt við hæla honum fyrir þá niðurstöðu sem nú hefur fengist í ljósi fjárhagsstöðu SPM, en því skal haldið til haga að Sparisjóður Mýrasýslu er með samningum þessum eina bankastofnunin hér á landi sem nær að semja sig út úr þrengingum sínum á eigin forsendum.

 

Lesendur Skessuhorns þekkja vel þá sögu sem varð kunn um mitt síðastliðið ár þegar ljóst var að SPM hafði tapað verulegum fjármunum og langt var gengið á eigið fé. Í kjölfarið hófst atburðarás þar sem farið var í viðræður við Kaupþing, sparisjóði og fleiri aðila um fjárhagslega endurskipulagningu og björgun sjóðsins. Um haustið náðust samningur við Kaupþing þar sem bankinn skuldbatt sig til að auka stofnfé SPM. Skömmu síðar verða hins vegar íslenskir bankar gjaldþrota og málefni SPM fóru í fullkomna óvissu á nýjan leik.  Fyrir fall bankanna í október hafði Kaupþing greitt upp skuldir SPM við Sparisjóðabankann og þannig varð sparisjóðurinn að vissu leyti viðskila við aðra sparisjóði og Kaupþing var orðinn stærsti lánardrottinn sjóðsins.

 

Í september 2008 tók Bernhard Þór við starfi sparisjóðsstjóra og hefur megin hluti starfs hans síðan falist í að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu SPM.

 

Tapaði 21 milljarði árið 2008

“Í nóvember síðastliðnum hafði ég skriflega samband við alla lánardrottna SPM. Gerði ég þeim hreinskilningslega grein fyrir stöðu mála hjá sjóðnum, en eins og komið hefur fram var tap sjóðsins gríðarlega mikið árið 2008, eða 21 milljarður króna. Eiginfjárstaðan í lok árs var því orðin verulega neikvæð eða sem nemur rúmlega 15 milljörðum króna. Það segir sig því sjálft að staðan var orðin býsna þröng fyrir SPM. Ástæða fyrir þessu mikla tapi á síðasta ári var annars vegar mikið gengisfall hlutabréfa sem útskýrir um fjórðung tapsins en afgangurinn er hins vegar varúðarfærslur vegna fyrirjáanlegra útlánatapa mest til fyrirtækja. Að stærstum hluta eru þessi fyrirtæki í Reykjavík. Bréfið sem ég skrifaði lánardrottnum okkar erlendis í nóvember síðastliðnum var upphafið að löngu samningaferli við lánardrottna okkar ytra og tókst gott samstarf við þá flesta. Það sem hefur komið mér mest á óvart í þessu ferli öllu saman er hvað mannlegi þátturinn reyndist mikilvægur og skyldi hann aldrei vanmeta. Ég var í mestum samskiptum við þýska bankamenn og þar höfðu menn fullan skilning á okkar stöðu og voru velviljaðir í okkar garð. Þetta fólk sem ég var að eiga samskipti við er sjálft að ganga í gegnum sambærilega erfiðleika í sínum bönkum, en þar er staða banka ekkert ólík því sem hér er, en gengur bara seinna yfir.”

 

Sjá viðtalið við Bernhard Þór í heild sinni í Skessuhorni sem kom út í dag.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is