Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. apríl. 2009 12:02

Brot úr sögu Jörvagleði í Dölum

„Vel eru dætur vestanlands,

vaxnar til að stíga dans,

stíga vikivaka....”

 

Jörvi í Haukadal
"Ekki verður með fullri vissu sagt hvenær fyrst var stiginn dans hérlendis, en blómatími vikivakanna mun hafa verð snemma á sautjándu öld. Líklegast má telja að þessi gamla skemmtan, sem tíðkast hafði á Íslandi síðan á elleftu öld, hafi liðið algjörlega undir lok kringum aldamótin 1800," segir í upphafi samantektar um Jörvagleði Dalamanna, sem Helga Ágústsdóttir ferða- og menningarfulltrú hefur tekið saman. Þessa samantekt birtum við hér í heild sinni þar sem Jörvagleði hefst í kvöld og stendur hátíðin fram á sunnudag.

Frægasta skemmtunin af þessu tagi er Jörvagleðin, sem haldin var á Jörva í Haukadal.  Má líkja þessari skemmtun við þorrablót eða jafnvel útihátíðir nútímans; þar sem ungt fólk kemur saman og skemmtir sér við söng og dans. Þrátt fyrir að Jörvagleðin hafi verið aflögð á sínum tíma, aðallega vegna lauslætis og svalls, hafa Dalamenn nefnt vorhátíð sem þeir halda annað hvert ár, Jörvagleði. Þar eru haldnir tónleikar, vísnakvöld, listasýningar af ýmsu tagi og að sjálfsögðu dansleikir. Skyldu meyjarnar í dag vilja „Hoffinn og Alfinn.”

 

„Í elstu heimild um Jörvagleðina í Haukadal er sagt að hún hafið staðið aðfaranótt Krossmessu að hausti, sem er 14. september.”

 

Tilkoma Jörvagleðinnar

Á Krossmessu var heyskap víða lokið og kaupafólk farið að huga að vistaskiptum. Miðuðust vistráðningar oft við þennan tíma. Áttu húsbændur það til að gera sér glaðan dag með kaupafólki sínu og er talið að þannig hafi Jörvagleðin verið tilkomin.

Ástæða þess að gleðin var haldin á Jörva frekar en öðrum bæjum hefur eflaust verið sú að Jörvi hefur talist til betri bæja eins og segir í Árbók Ferðafélagsins frá 1947. „Á Jörva bjuggu jafnan efnamenn og hýstu stórmannlega.” Sótti þangað fjöldi fólks til skemmtanar. Ungt fólk og óráðsett fýsti mjög að fara í gleði þessa og sóttu hana langar leiðir. Er það ennþá í mæli að hjú hafi ráðið sig heima með því skilyrði að því væri heimilt að fara í gleðina. Til gleðinnar á Jörva í Haukadal hafi ei aðeins sótt fólk úr öllum Breiðarfjarðardölum, heldur utan að Skógarströnd og vestan yfir Rauðamelsheiði. 

Þarna var saman kominn fjöldi ungs fólks svo að ekki var húsrými fyrir allan mannskapinn. Dró þá fólkið sig saman í útihúsum og hvar sem það fann stað og herma sögur að mörg „skyndibrullaup“ hafi orðið úr.

Þó má geta þess að á Jörva bjuggu jafnan efnamenn og hýstu stórmannlega. Til þess að halda mannmarga gleði sem Jörvagleðin var, hefur þurft rúmgóð húsakynni, mat og mjaðarföng. Má geta sér til um að menn hafi lagt saman, þeir er skemmtunarinnar nutu.

Fáar heimildir eru til um Jörvagleðina, en menn hafa verið með getgátur og vangaveltur um atburði gleðinnar og segir Hjörtur Pálsson svo frá: „Sennilega hefur samkoman hafist með borðhaldi á baðstofugólfinu. Þá var borið fram vínskál inn í veislusalinn, sem kölluð var vítabikar, og þá sungin þessi vísa:

 

Bolli víta borinn er inn,

bragnar mega hann finna,

að skemmtan þeim í skilnaðinn,

svo skuli þá til hans minna.

 

Síðan var skálin drukkin og eflaust fleiri minni. Tóku menn svo að dansa. Það af fólkinu sem lék ekki sat á palli og horfði á. Stundum kváðust karla og konur á vísur og margt annað var haft til skemmtunar. Á Jörvagleði voru leiknir ýmsir leikir; Hoffinsleikur, Þjóðhildarleikur og hindarleikur en engar heimildir eru um hvernig þeir fóru fram. En kannast menn við þetta gamalkunna upphaf: „Hér er kominn Hoffinn” og „margt er það sem máninn sér milli skýjaþykkna” sem talið er að sé hluti af Hoffinsleik.”

Guðmundar Einarssonar, sem var prestur í Kvennabrekku í Dölum árin 1848-68, segir frá Jörvagleðinni í munnmælum sem hann heyrði frá sveitungum sínum.

„Þar var stiginn dans, kveðin ástarkvæði (víkivakar), leiknir ýmsir leikir og margháttuð skrípalæti og lausung í frammi höfð. Fólkið sem sótti gleðina safnaðist saman til leika á baðstofugólfi (því jafnan mun hafa verið nokkuð stórhýst á Jörva); það sem ekki lék sat á palli. Sá var Hoffmann eða Hoffinn nefndur er stýrði gleðinni, en sá Alfinn er honum gekk næstur. Þessu næst fóru leikar fram og hvert þeir hafi verið margir eða fáir, er sagt að þeir hafi endað með þessu atkvæði:

 

Mey vill Hoffinn

mey vill Alfinn

mey vilja allir Hoffins sveinar.

 

Er þá mælt að karlmenn hafi gengið í kvennahópinn. Foringjar fyrst svo hver af öðrum, og tekið sér konu til fylgilags.”

 

Dularfullir atburðir

Jörvagleðin hafði verið haldin svo lengi sem menn mundu en var svo tvívegis „afskipuð.” Í fyrra skiptið 1695 og síðan 1708. „Fullrúum annars heims í landinu töldu það skyldu sína að berjast fast gegn þessum leikjum alþýðunnar, enda var það oftast næst fast drukkið og siðferðið stundum eins og hurð á hjörum.”

Árið 1695 aflagði Björn Jónsson sýslumaður í Dalasýslu Jörvagleðina. Snemma fór að bera á dularfullum atburðum í kjölfari bannsins. Vorið eftir fæddust flest öll lömbin á Jörva sem skrímsli eða örkumluð. Þrátt fyrir að hafa verið aflögð, hélst Jörvagleðin enn við og í annað sinn var hún aflögð og þá af Jóni Magnússyni sýslumanni eftir 1708.

Aftur fór að bera á dularfullum atburðum. Því veturinn eftir hljóp fram snjóflóð úr Jörvahnjúksgili í fyrsta sinn, en oft síðan. Var þetta tekið sem teikn reiði eða óblessunar þar gleðin væri aftekin. Enn fremur er í mæli, að sá er aflagði gleðina, hafi fengið þau gjöld fyrir að hann hafi misst á hverjum vetri vænstu kúna sína eða reiðhestinn. Álfar áttu sem sé að hafa tekið þátt í gleðinni og hafi það verið sögn hinna skyggnu, að ekki hafi þeir verið færri í gleðinni sem ekki sáust en hinir sem sáust.

„Enn átti Jón sýslumaður eftir að lenda í vanda og nú í persónulegum málum sínum og trúði alþýða manna  að ógæfa fylgdi þegar horfið væri frá gamalgrónum venjum. Jón eignaðist barn framhjá konu sinni og átti á hættu að missa embætti sitt fyrir það. Nokkrum árum áður átti hann annað barn framhjá og missti fyrir það prestskap.”

Það má velta vöngum yfir þeirri ákvörðun yfirvalda að leggja niður þessar hátíðir. Nú hafa vinsældir Jörvagleðinnar verið gríðarlegar og ekki mikið um aðra skemmtan í sveitinni. Oftast er það nefnt að lauslæti hafi verið mikið og mörg börn komið undir á þessum tíma með vafasömu faðerni, samanber: „Kona ein sem var í Jörvagleði hinni síðustu lýsti  átján menn feður að barni sínu.”

 

Á síðustu Jörvagleðinni árið 1708, áttu að hafa komið undir nítján börn. Eins og fyrr greinir frá þá voru mög „skyndibrullaup“ viðhöfð þarna enda eflaust ástæða fyrir.  Hitt má þó ætla að hafi vegið þyngra að á þessum tíma árið 1708 geysaði mannskæð bólusótt  á landinu. „Á tímum sem þessum þegar að bólusóttin æðir um landið og fellir fólk í hrönnum, kemur og til álita hvenær sóttir breiðast vítt á jafnfjölmennri gleði og tíðkast hefur á Jörfa.”

 

Veisla framundan

Þrátt fyrir að Jörvagleðin hafi verið aflögð á sínum tíma, aðallega vegna lauslætis og svalls, endurvöktu Dalamenn Jörvagleðina í sinni núverandi mynd árið 1977 og er hún nú haldin í 17. skiptið. Margt verður um að vera þessa fimm daga sem  hátíðin fer fram. Eins og fyrr á öldum verður stiginn hér dans og munu Paparnir sjá um undirleikinn í þetta sinn. Það verður mikið söng og gleði og á setningu Jörvagleðinnar verða flutt ljóð Björns Stefáns Guðmundssonar Dalaskálds, af tónlistarfólki úr Dölum. Nemendur Tónlistarskóla Dalasýslu frumflytja tónverk eftir Harald G. Bragason skólastjóra og sveitarstjóri Dalabyggðar sýnir á sér nýja hlið og heldur uppi fjöri í Leifsbúð með hljómsveit sinni Grjóthruni í Hólshreppi. Leikfélagið verður með sýninguna Spretthlauparann og bregður svo á leik með börnum og unglingum í Dalaleikum, þar sem keppt er í óhefðbundnum greinum. Kaffi og kökuveislur verða bæði á Skriðulandi og í Leifsbúð. Þetta er aðeins brot af dagskránni sem trúlega er fjölbreyttari en áður fyrr en hana má nálgast á vef Dalabyggðar; www.dalir.is 

Nú skreyta Dalamenn umhverfi sitt, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Draga fána að húni á Jörvagleðidögum og klæðast margir hverjir þjóðlegum búningum og taka brosandi á móti gestum eins og áður fyrr, þessa skemmtilegu daga sem Jörvagleðin er.

 

Samantekt:

Helga H. Ágústsdóttir ferða- og  menningarfulltrúi Dalabyggðar.

 

Heimildir:

Guðrún Ása Grímsdóttir og Árni Björnsson. 1997. Í fjallhögum á milli Mýra og Dala. Ferðafélag Íslands, árbók.1997 Reykjavík .  Árni Björnsson. 1993. Saga daganna  Mál og menning, Reykjavík. Breiðfirðingur 22.-23. ár 1964. Ritstjóri Árelíus Níelsson. Öldin átjánda, minnisverð tíðindi 1701-1760, Jón Helgason tók saman. Reykjavík 1960.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is