Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. apríl. 2009 11:11

Skagamenn sýndu að þeim er ekki sama um Byggðasafnið

Sneisafullt var út úr dyrum á borgarafundi í Safnaskálanum á Akranesi í gærkveldi þar sem rætt var um málefni Byggðasafnsins að Görðum, fyrirhugaða útvistun Safnasvæðis og Kirkjuhvols sem væntanlega verður samþykkt formlega á bæjarstjórnarfundi síðdegis í dag. Það voru fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn sem boðuðu til fundarins. Greinilegur hiti var í fundarmönnum sem mættir voru til að mótmæla því að umræddur samningur næði fram að ganga. Fundurinn tók nær einhuga undir yfirlýsingu sem Hrönn Ríkharðsdóttir las upp undir lok fundarins þar sem skorað var á bæjarstjórnina að hverfa frá útvistun Byggðasafnsins og listasetursins Kirkjuhvols.

Bæjarfulltrúar minnihlutans boðuðu til fundarins eftir að meirihluti bæjarstjórnar og bæjarstjóri höfðu ekki orðið við áskorun að efna til almenns borgarfundar um málefni byggðasafnsins. Framsögu á fundinum í gær höfðu minnihlutafulltrúarnir Hrönn Ríkharðsdóttir, Rún Halldórsdóttir, Sveinn Kristinsson og Guðmundur Páll Jónsson, ásamt Gísla S. Einarssyni bæjarstjóra og Adolf Friðrikssyni fornleifafræðingi og forsvarsmanna Vætta, sem umræddur og umdeildur samningur er gerður við.

 

Minnihlutafulltrúarnir röktu sögu málsins í bæjarstjórninni og lýstu andstöðu sinni við útvistun byggðasafnsins og Kirkjuhvols. Töldu þeir ekki einungis rangt að einkasvæða þessa starfsemi heldur bæri samningurinn með sér að fjárhagsleg útlát bæjarsjóð vegna hennar yrðu engu minni en áður. Sveinn Kristinsson kvað svo rammt að orði að segja að þegar samningstími yrði úti árið 2014 væri ekki hægt að gera sér grein fyrir stöðunni og þá kynni byggðasafnið að verða hálf munaðarlaust. Með umræddum samningi væri bæjarstjórnin líka að úthýsa byggðasafninu á Akranesi úr íslenska safnageiranum, það ætti ekki möguleika á þeim styrkjum af almannafé sem það hefði notið til þessa.

 

Gísli S. Einarsson bæjarstjóri rakti einnig sögu málsins í bæjarkerfinu og kvaðst ekki hafa orðið var við þessa andstöðu við málið fyrr en núna upp á síðkastið. Nefndi Gísli þessu til staðfestingar yfirlýsingar og samþykktir. Bæjarstjóri undraðist hvað fundurinn var fjölsóttur og bar mætinguna saman við það þegar um 20 manns mættu á borgarafund í febrúar í vetur þar sem fjárhagsáætlun og almenn bæjarmál voru tekin fyrir. Þar hefði m.a. málefni byggðasafnsins verið rædd.

 

Undruðust góða fundarsókn

Athygli vakti að aðeins einn fulltrúi meirihluta bæjarstórnar mætti á fundinn. Var það Eydís Aðalbjörnsdóttir sem reyndar gagnrýndi það í upphafi að fulltrúum meirihlutans auk bæjarstjórans hefði ekki verið boðið að hafa framsögu á fundinum. Eydís frábað sér þó að þurfa að svara fyrirspurnum um málið, enda hefði hún misst þráðinn í þessu tiltekna máli vegna prófkjörsbaráttu og ekki getað setið tvo síðustu fundi bæjarstjórnar. Eydís sagðist reyndar eiga eftir að mynda sér skoðun í málinu og ætlaði því að hlusta vel á fólkið á fundinum. Það var eins með Eydísi og Gísla bæjarstjóra að hún furðaði sig á góðri fundarsókn og taldi að það þýddi að fólk yrði þá duglegt að heimsækja byggðasafnið í sumar.

 

Lifandi safn

Adolf Friðriksson hjá Vættum gerði góða grein fyrir áformum sínum á safnasvæðinu og í Kirkjuhvoli og virðast þau vera mjög áhugaverð. Adolf ætlar að auka vísinda- og rannsóknastarf á safnasvæðinu og gera byggðasafnið að lifandi safni. Hann segir að þessi starfsemi verði ákjósanlegur stökkpallur fyrir það að mynda háskólasamfélag á Akranesi. Á hinn boginn gerði Adolf sig að píslarvætti í málinu, sagðist vera vondi maðurinn og ýjaði að slúðri og sögusögnum í kringum þetta mál.

 

Andstætt siðareglum

Margir bæjarbúar lögðu fram fyrirspurnir á fundinum sem stóð í tvo tíma. Vildu þeir fá svör við ýmsum sem viðkom safnasvæðinu og furðuðu sig á því hversvegna málið hefði ekki verið kynnt betur fyrir hinum almenna bæjarbúa. Bæjarstjóri hvatti fundarmenn til að kynna sér samninginn sem settur hafði verið á netið fyrr um daginn. Hlut hann við það aðhlátur fundarmanna. Á fundinn var m.a. mætt Ágústa Kristófersdóttir formaður stjórnar Félags íslenskra safna og safnmanna, sem lýst hefur því yfir að umræddur samningur sé brot á siðareglum í safnamálum. Ágústa furðaði sig m.a. á því að félagið hafi þurft að sækja fast að fá umræddan samning í stað þess að fá hann sendan til umsagnar. Það hefði einnig þurft að gera gagnvart fleiri fagaðilum í landinu. Þorgeir Jósefsson formaður stjórnar Akranesstofu kannaðist ekki við að reglur kvæðu á um það, en þetta var eina fyrirspurnin sem til Þorgeirs var beint á fundinum, þótt öll þessu mál tengd samningnum hafi farið í gegnum stjórn Akranesstofu.

 

Andrúmsloftið á fundinum var sérkennilegt. Fundurinn endaði á að sá fulltrúi meirihluta bæjarstjórnar sem mættur var jós úr skálum reiði sinnar eftir að hafa verið margknúinn að gefa upp afstöðu sína í málinu. Eydís kvaðst þar ætla að greiða atkvæði eftir sinni sannfæringu, sem kemur fram á fundi bæjarstjórnar í dag.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is