29. apríl. 2009 10:03
„Ég hef alltaf sagt að þingmannsstarfið sé fullt vinna og þess vegna mun ég segja af mér öllum störfum fyrir Snæfellsbæ áður en kosið verður í nefndir og ráð fyrir næsta ár, eins og venjulega er gert á júnífundinum. Ég á því eftir að sitja í bæjarstjórn í um það bil einn mánuð,“ segir Ásbjörn Óttarsson nýkjörinn fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar.
Það verður Brynja Mjöll Ólafsdóttir sem færist upp og tekur sæti Ásbjörns í bæjarstjórninni, en kosið verður um embætti forseta bæjarstórnar og í nefndir hjá Snæfellsbæ á júnífundinum. Tveir alþingismenn hafa gegnt og gegna enn tvöföldum störfum á pólitíska sviðinu. Kristján Þór Júlísson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er í bæjarstjórn Akureyrar og Birkir Jón Jónsson þingmaður Framsóknarflokks í sama kjördæmi er í bæjarstjórn Fjallabyggðar.
Þá voru sex sveitarstjórnarmenn kosnir inn á þing nú á laugardaginn. Þar á meðal eru Ásbjörn og Gunnar Bragi Sveinsson oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Hinir fjórir eru Svandís Svavarsdóttir oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, Unnur Brá Konráðsdóttir sjálfstæðiskona sem er sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, Oddný G. Harðardóttir Samfylkingunni og bæjarstýra í Garði og Jónína Rós Guðmundsdóttir Samfylkingunni, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs.