Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. maí. 2009 06:31

Nýkrýnd fegurðardrottning stefnir á nám í hönnun

Eins og fram kom í fréttum sl. föstudagskvöld sigraði Guðrún Dögg Rúnarsdóttir á Akranesi Fegurðarsamkeppni Íslands 2009. Guðrún Dögg er fædd og alin upp á Akranesi fyrstu átta árin. Þá flyst hún á Bifröst í Borgarfirði og var þá nemandi í Varmalandsskóla en síðustu þrjú ár grunnskólaaldursins bjó hún í Reykjavík. Sextán ára flutti hún síðan aftur á Akranes og var í eitt og hálft ár á almennri braut í Fjölbrautaskóla Vesturlands en söðlaði um um síðustu áramót og hóf þá nám á listnámsbraut við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hún stefnir á að útskrifast sem stúdent þaðan eftir tvö og hálft ár.  Í viðtali við blaðamann Skessuhorns segist hin nýkjörna fegurðardrottning vita nákvæmlega hvað hún vilji læra í framtíðinni. “Mig hefur alltaf langað til að læra einhvers konar hönnun eða myndlist.

Ég hafði tekið áfanga í fatahönnun í FVA og vann hjá Dídí gullsmiði á Akranesi og líkaði vel allt sem viðkom hönnun og að búa til. Eftir að ég verð stúdent frá listnámsbraut FB stefni ég á að sækja um í hönnunarskóla í Mílanó á Ítalíu og stefni á BA gráðu í hönnun þaðan, en það er þriggja ára nám.  Mig hefur alltaf langað að fara út og læra tungumál. Ég fór ásamt fjölskyldunni minni í fyrrasumar til Ítalíu og líkaði þar mjög vel. Fólkið var opið og skemmtilegt og landið er fallegt,” sagði Guðrún Dögg.

 

Íþróttaiðkun hjálpar

En mun það breyta einhverju um áætlanir Guðrúnar Daggar að hafa verið kosin Fegurðardrottning Íslands?

“Ég þarf náttúrlega að undirbúa mig vel fyrir Miss World keppnina sem fram fer í Suður Afríku í desember. Það er mjög spennandi en mig hafði einmitt dreymt um að komast til Afríku og því er þetta eins og draumur sem rætist. Á næstunni verða einhver verkefni við myndatökur og slíkt og síðan verð ég að sjálfsögðu að vera dugleg að þjálfa í sumar; fara í líkamsrækt, æfa göngulagið og þarf að passa upp á mataræðið. Það hjálpar mér örugglega að ég hef alltaf verið dugleg að stunda íþróttir; hef til dæmis æft sund, fótbolta, fimleika og verið mikið á skautum en ég mun leggja áherslu á líkamsræktina í sumar og fer vonandi líka mikið út að hlaupa með hundinn.”

 

Gefandi að vinna með fullorðnu fólki

Guðrún Dögg mun starfa í sumar í eldhúsinu á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi en þar líkar henni vel að vinna. “Ég er heppin og þakklát fyrir að hafa yfirleitt vinnu, það eru sko alls ekki allir jafnaldrar mínir svo heppnir. Mér finnst sérstaklega gaman að vinna á Höfða og gamla fólkið er alveg yndislegt við mig. Ég var í sama starfi í fyrrasumar og mér finnst frábært að vera að byrja þar aftur því það er svo gefandi að vinna með fullorðnu fólki. Til dæmis samfagnaði það mér innilega þegar ég hafði lent í öðru sæti í keppninni um Ungfrú Vesturland; kyssti mig og hvatti mig áfram.”

 

Þurfti nýjan kjól

En hvernig var að taka þátt í keppninni um Ungfrú Ísland, nú virkaðir þú ekkert sérlega stressuð að sjá svona í sjónvarpinu?

“Ég var náttúrlega alveg ferlega stressuð og var hálf skjálfandi á beinunum. Hvað heldur þú maður, á bikiníi frammi fyrir alþjóð í beinni útsendingu í sjónvarpinu! Ég var samt heppin að stressið náði ekki alveg tökum á mér, en ég tók það mest út eftir að ég var sest upp í bíl á leiðinni heim eftir keppnina. Ég hafði pantað mér kjól frá Kína til að vera í á sjálfri keppninni en því hafði seinkað að kjóllinn kæmi. Því varð ég að fara út í búð fjórum tímum fyrir keppnina og kaupa mér nýjan kjól þar sem ég gat ekki notað þann sama og í keppninni uppi á Skaga því ég hafði grennst. Ég var eiginlega mest stressuð yfir því að hafa ekki getað æft mig í nýja kjólnum, það hefði t.d. ekki verið neitt grín að detta þarna á sviðinu, en þetta reddaðist þó allt saman. Eftir keppnina tók það mig eiginlega svona tvo daga að átta mig á hvað raunverulega hafði gerst. En þetta var það sem allar stúlkurnar í keppninni höfðu stefnt að og auðvitað er ég bara þakklát fyrir hversu vel gekk. Það er mikil reynsla sem felst í því að taka þátt í svona keppni og mikil sjálfsstyrking sem maður fær út úr þessu öllu.”

 

Engar áhyggjur af samningnum

Nú hefur töluvert verið rætt í fjölmiðlum um samninga sem þátttakendur í keppninni um Ungfrú Ísland þurfa að skrifa undir. Guðrún Dögg gerir lítið úr ákvæðum þessara samninga.

“Það hefur aldrei reynt á þessa samninga. Í rauninni erum við að skrifa undir ákveðnar viðmiðunarreglur sem gilda í öllum svona keppnum og reynir ekki á ákvæði þeirra nema að maður lendi í einu af þremur efstu sætunum í keppninni. Ég hef hinsvegar ekki neinar áhyggjur af því. Með þessum samningum er verið að reyna að tryggja að þeir sem vinna fari ekki á eitthvað ímyndarflipp, raki t.d. ekki af sér allt hárið eða geri eitthvað heimskulegt sem skaðað getur keppnina sem slíka. Það hefur hinsvegar aldrei reynt neitt á þessa samninga og því hef ég engar áhyggjur af þessu,” segir Guðrún Dögg.

 

Risastór og góð fjölskylda

Hin nýkrýnda fegurðardrottning er sæl og ánægð með hlutskipti sitt og hlakkar til þess sem framundan er.

“Ég á risastóra fjölskyldu sem styður mig í því sem ég er að gera og því er ég heppin. Foreldrar mínir búa bæði á Akranesi, en þau skyldu þegar ég var tólf ára gömul. Ég leit hinsvegar aldrei á það sem vandamál þegar þau skyldu og fór þannig ekki illa út úr því líkt og sumir krakkar hafa gert. Þau eru samt góðir vinir og þá líður öllum vel. Svo á ég tvær alsystur, tvo hálfbræður og tvo stjúpbræður og svo auðvitað hundinn sem ég fæ að fara út að hlaupa með. Þetta verður skemmtilegt ár og ég hlakka bara til en auðvitað verður maður að einblína mest á Miss World keppnina í desember,” sagði Guðrún Dögg Rúnarsdóttir að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is