08. júní. 2009 01:01
 |
Valdimar með blómin. Ljósm. Sigga Leifs. |
Valdimar K. Sigurðsson þjálfari og leikmaður Skallagríms náði þeim áfanga að skora tvö hundraðasta deildamark sitt þegar Skallagrímur sigraði Berserki í þriðju deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í Borgarnesi á laugardaginn. Lokatölur urðu 4-1 en Skallagrímur skoraði fyrsta markið strax á annarri mínútu leiksins. Berserkir jöfnuðu tuttugu mínútum síðar en Valdimar kom Skallagrími yfir undir lok fyrri hálfleiks. Forysta Skallagríms jókst svo í 3-1 þegar tuttugu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Berserkir skoruðu sjálfsmark en Dawid Mikolaj Dabrowski innsiglaði 4-1 sigur heimamanna á lokamínútum leiksins. Skallagrímur er nú efstur í sínum riðli með níu stig eftir þrjá leiki.
“Það er orðinn árlegur liður í fjárhagsáætlun knattspyrnudeildar Skallagríms að gera ráð fyrir blómvendi halda Valda,” segir Kristmar J Ólafsson hjá knattspyrnudeildinni í samtali við Skessuhorn. Markaskorun Valdimars í deildakeppninni er Íslandsmet en sá sem næstur kemur honum er með 189 mörk. Sá er fjórum árum yngri en Valdimar og enn að spila svo Valdi, sem er að verða 41 árs, verður að halda eitthvað áfram að spila til að halda metinu. Mörkin hefur Valdimar skorað í öllum deildum. “Hann er búinn að fylgja okkur úr neðstu deild upp í þá efstu, sem var árið 1997 og síðan niður aftur. Auk þess hef ég ekki tölu á þeim mörkum sem Valdi hefur skorað í bikarleikjum og vináttuleikjum,” segir Kristmar.