Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
10. júní. 2009 01:04

Kynntu áherslur sameinaðrar sveitarstjórnar

Sameinað byggðaráð Borgarbyggðar.
Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns í gærkvöldi hafa allir listar sem eiga sæti í sveitarstjórn Borgarbyggðar tekið ákvörðun um að vinna saman í meirihluta það sem eftir lifir kjörtímabils. Oddvitar þessara lista, þeir Sveinbjörn Eyjólfsson Framsóknarflokki, Finnbogi Rögnvaldsson Borgarlista og Björn Bjarki Þorsteinsson Sjálfstæðisflokki boðuðu í gærkvöldi til blaðamannafundar þar sem þeir skýrðu ástæður þessarar ákvörðunar. Þetta mun vera fyrsta sveitarfélagið á landinu til að taka höndum saman og leggja hefðbundna skiptingu minni- og meirihluta á hilluna og einhenda sér í lausn málefna sveitarfélagsins, sem forsvarsmenn Borgarbyggðar segja vera þau erfiðustu á lýðveldistímanum.

“Það hefur orðið grunnforsendubrestur í tekjum og útgjöldum Borgarbyggðar. Við höfum á undanförnum vikum unnið saman í þverpólitískum vinnuhópum sem eiga að leggja til sparnaðarleiðir í rekstri. Í þeirri vinnu sáum við fljótt að það borgar sig að vinna saman að svona stóru verkefni,” segir Björn Bjarki Þorsteinsson sem áfram verður forseti sveitarstjórnar. Sveinbjörn Eyjólfsson sem nú tekur við formennsku í byggðaráði af Finnboga Rögnvaldssyni sagði að þrátt fyrir að minnihlutinn hafi reynt að vera málefnalegur þá sé því ekki að neita að auðveldara verður að fara í meirihlutasamstarfið við þessar aðstæður. “Við höfum ekki neinn loforðalista á bakinu sem við þurfum að efna,” segir Sveinbjörn.

 

Vilja hreinsa SPM mál

Þá sagði Sveinbjörn að rík krafa væri um að málefni SPM yrðu gerð upp. “Sú staða er uppi að starfsmenn og stjórnendur Sparisjóðs Mýrasýslu hafa hugsanlega verið dæmdir að ósekju sekir af samfélaginu og við höfum því lagt á það áherslu að eitt af verkefnum þessa meirihluta verði að ýta á að fram fari opinber rannsókn á rekstri og falli SPM. Við viljum að málefni sjóðsins verði rannsökuð eins og annarra bankastofnana sem hafa farið í þrot. Hver bar ábyrgð og var eitthvað ólöglegt í gangi? Þessu viljum við fá svör við þannig að málið verði endanlega gert upp í samfélaginu,” sagði Sveinbjörn. Undir þetta tóku aðrir oddvitar listanna í sveitarstjórn.

 

Ný vinnubrögð

Meðal þeirra verkefna sem sveitarstjórn Borgarbyggðar mun leggja höfuðáherslu á næstu misserin er endurskoðun á lánum, eignum og skuldbindingum sveitarfélagsins. Farið verður í ítrasta aðhald í stjórnun, stjórnsýslu, framkvæmdum og almennum viðhaldsverkefnum. Eru sveitarstjórnarmenn sammála um að fram verði að fara hagræðing og endurskoðun á rekstri allra stofnana sveitarfélagsins til að það nái endum saman í rekstri. “Það eru framundan mestu breytingar sem orðið hafa á lýðveldistímanum og því er full ástæða fyrir sveitarfélag eins og okkar að taka upp ný vinnubrögð. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er afgerandi og við verðum einfaldlega að breyta rekstri til samræmis við breytta tíma og efnahag. Vandinn liggur fyrir og það er okkar að vinna úr honum,” sagði Finnbogi Rögnvaldsson oddviti Borgarlistans.

 

Eining um breytingarnar

Aðspurðir segja oddvitar listanna að eining hafi verið í öllum flokkum um að fara í svokallaða “þjóðstjórn” í Borgarbyggð. Þó segja heimildamenn Skessuhorns að einna helst hafi óángjuradda gætt í röðum Borgarlistans, enda missir oddviti listans vegtyllu sína sem formaður byggðaráðs. Finnbogi Rögnvaldsson vill sem minnst úr því gera og segir verkefni í sínum huga koma ofar vegtyllum.

Eins og áður segir verða næstu verkefni sveitarstjórnar að fara ofan í saumana á rekstri sveitarfélagsins. “Við ákváðum að fækka nefndum úr sjö í fimm. Sameinum tómstunda og menningarnefnd í eina en leggjum niður atvinnumálanefnd. Næst munum við skoða niðurstöðu fimm mánaða árshlutauppgjörs til að sjá hvar megi spara strax,” sagði Sveinbjörn Eyjólfsson. “Endurskipulagning sveitarfélagsins til lengri tíma og þar á meðal áætlanagerð mun fara af stað eftir sumarleyfi og við munum leggja mikla áherslu á að hitta fólkið og ræða við það um stöðu sveitarfélagsins áður en farið verður í meiriháttar niðurskurð,” sögðu oddvitarnir að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is