Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. júní. 2009 02:35

Víða skorið niður í rekstri Akraneskaupstaðar

Gísli S Einarsson bæjarstjóri.
“Miðað við fjárhagsáætlun fyrir þetta ár höfum við nú þegar skorið niður um 200 milljónir króna í rekstri Akraneskaupstaðar en því til viðbótar stefnum við á að ná um 90 milljóna króna sparnaði á ársgrundvelli,” segir Gísli S Einarsson bæjarstjóri á Akranesi í samtali við Skessuhorn. Hann segir að nú sé unnið markvisst að endurskoðun ýmissa samninga sem gefið geta einhverja tugi milljóna í sparnaði fyrir bæjarsjóð. “Það er alveg ljóst að t.d. samningur um akstur milli Akraness og Reykjavíkur verður tekinn upp þegar hann rennur út í lok ágúst og mun það þýða skerta þjónustu miðað við það sem nú er. Við erum að skoða alla samninga til að leita hagræðingar, þar með talda samninga um tölvumál, innanbæjarakstur strætisvagns og fleira. Við verðum að leita hagræðingar á öllum sviðum.

Starfsfólk okkar í stofnunum bæjarins hefur lagt okkur til góð ráð í þessu efni og komið að þessari vinnu með okkur. Tillögur mótast hins vegar og verða samþykktar í bæjarráði og bæjarstjórn,” segir Gísli.

 

Hann segir að minni- og meirihluti bæjarstjórnar hafi staðið saman í tilllögum að niðurskurði en þar störfuðu fremstir saman þeir Guðmundur Páll Jónsson sem fulltrúi minnihlutans og Gunnar Sigurðsson frá meirihluta. “Við samþykktum nýtt stjórnskipulag um síðustu áramót þannig að allir kjörnir fulltrúar eru í raun með í ákvarðanatöku og stefnumótun þannig að við vorum eiginlega skrefi á undan þeim í Borgarbyggð sem samþykktu “þjóðstjórn” í síðustu viku. Ég tel að við séum með lýðræðislegustu framkvæmd stjórnsýslunnar af bæjarfélögum á öllu landinu og hún byggist á hinu nýju stjórnskipulagi og er það okkar styrkur við þessar aðstæður í þjóðfélaginu,” segir Gísli.

 

Ýmiss sparnaður

Á fundi bæjarráðs Akraneskaupstaðar í gær voru samþykktar ýmsar ráðstafanir sem allar miða að lækkun kostnaðar við rekstur bæjarins. Í fyrsta lagi var samþykkt að umsamin greiðsla fastrar yfirvinnu starfsmanna Akraneskaupstaðar sem færð hefur verið inn í föst laun verði lækkuð um 7,5% og lagt til að sú breyting taki gildi 1. júlí næstkomandi og gildi út árið 2010, en verði endurskoðað að þeim tíma liðnum. Þá er öll önnur yfirvinna en kjarasamningsbundin með öllu óheimil án heimildar bæjarstjóra frá sama tíma. Samþykkt var að kanna hvort hagkvæmt geti reynst að gera starfslokasamninga við þá starfsmenn sem eru að nálgast starfslok sín svo og þá starfsmenn sem heyra undir svokalla 32 ára reglu og 95 ára reglu. Þá samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra, fjármálastjóra og endurskoðanda að leita eftir endurfjármögnun á lánasafni Akraneskaupstaðar með það að markmiði að minnka fjárþörf til afborgana langtímalána.

 

Bæjarráð samþykkti að ekki verði gert ráð fyrir fjárhæð á fjárhagsáætlun næsta árs til Húsverndunarsjóðs Akraneskaupstaðar, samþykkt var að afla tilboða í innkaup á pappír og ritföngum fyrir allar stofnanir Akraneskaupstaðar og fyrirliggjandi samningar um innkaup verði yfirfarnir með tilliti til þessa. Samþykkt var að hætta að bjóða upp á veitingar á fundum nefnda og ráða og að fela bæjarstjóra að afla tilboða í innkaup á matar- og hreinlætisvörum fyrir stofnanir Akraneskaupstaðar. Bæjarráð samþykkti einnig að fela endurskoðanda bæjarins ásamt bæjarstjóra að gera úttekt á hagkvæmi þess að endurskipuleggja deildir innan aðalskrifstofu Akraneskaupstaðar. 

 

Varðandi hátíðir og viðburði var samþykkt að framlög til þessara mannamóta verði lækkuð enn frekar eða um allt að þrjár milljónir króna. Á þetta við um hátíð hafsins, írskra daga, vökudaga og aðra viðburði. Loks samþykkti bæjarráð að stytta opnunartíma Bókasafns Akraness um eina klukkustund síðdegis virka daga vikunnar, laugardagsopnun verði felld niður og að bókasafnið verði lokað í tvo mánuði í sumar vegna sumarleyfa og flutnings í nýtt húsnæði.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is