18. júní. 2009 11:27
 |
Fáir en stórir laxar hafa auðkennt veiðar í Norðurá í sumar, þrátt fyrir áhyggjur LV. |
“Landssamband veiðifélaga (LV) hvetur veiðifélög og leigutaka til sameiginlegs átaks um að veiðimenn sleppi stórlaxi og að settar verði fortakslausar reglur þar að lútandi.” Ályktun þessa efnis var samþykkt á aðalfundi LV. Þar segir að stofn stórlaxa sé enn í sögulegu lágmarki og hætta sé á að stórlaxinn hverfi að óbreyttu alveg úr ám þar sem honum er ekki hlíft við veiði. Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar, fjallaði um svokallaðan stórlax í erindi á aðalfundinum, lax sem verið hefur að minnsta kosti tvö ár í sjó. Hann sagði að stórlaxi hefði fækkað stórlega í flestum ám og veruleg hætta væri á að stórlaxinn hyrfi alveg á næstu áratugum. Veiðifélögum bæri skylda til að grípa til aðgerða, til dæmis með því að veiðimenn slepptu stórlaxi og að netaveiði yrði tímastýrð.
Aðalfundur LV á Laugarvatni var haldinn 12.-13. júní sl. Þar var fjallað um mörg önnur hagsmunamál greinarinnar og minnt meðal annars á að á krepputímum væri mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um þau verðmæti sem íslenskar veiðiár og vötn væru. Fundurinn hvatti veiðiréttareigendur og veiðileyfasala til dáða í markaðsmálum enda væri þar eftir dýrmætum gjaldeyristekjum að slægjast. Markaðsmálin voru sérstaklega til umfjöllunar í erindi Jóns Sigurðssonar kerfisfræðings sem kynnti breska veiðivefinn FishPal.com. Þar hefur verið stofnuð Íslandsdeild sem auðveldar erlendum veiðimönnum að komast í lax- og silungsveiði á Íslandi.