25. júní. 2009 09:48
 |
Myndin er frá því örninn var handsamaður. Ljósm. nsv.is |
Um miðjan þennan mánuð var sagt frá því þegar ársgamall grútarblautur örn var handsamaður á Snæfellsnesi. Í frétta á heimasíðu Náttúrustofu Vesturlands er sagt frá því að undanfarna daga hafi örninn dvalið í Húsdýragarðinum þar sem hann var þveginn, losaður við grútinn og gefið að éta en hann hreifst helst af niðurskornum nautahjörtum. Í gær var erninum síðan sleppt í Helgafellssveit. Hann var kraftmikill að sjá og tók flugið um leið og tækifæri gafst. Hann sveimaði í nokkurn tíma um svæðið áður en hann settist um stund einn til tvo kílómetra frá sleppingarstað. Björgunin virðist því hafa borið góðan árangur.
Náttúrustofufólk segir að Arnarvarp virðist hafa gengið ágætlega í vor samanborið við undanfarin ár. Samtals fundust hreiður 44 arnarpara en heildarfjöldi para í stofninum er um 65. Á næstu dögum munu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands fljúga yfir varpsvæði arna og kanna hverjir þeirra hafi komið upp ungum. Síðustu ár hafa oftast 23-25 pör komið 1-2 ungum á legg, þar af um þriðjungur tveimur ungum.
Hægt er að skoða myndskeið af sleppingunni á www.nsv.is