26. júní. 2009 05:14
 |
Athafnasvæði Loftorku í Borgarnesi |
Svartur dagur í atvinnusögu Borgarness
Loftorka Borgarnesi ehf. lagði í dag inn beiðni til Héraðsdóms Vesturlands um að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. “Það eru margar samverkandi ástæður sem valda því að þessi staða er komin upp. Gríðarlegur samdráttur á byggingamarkaði er stærsta ástæðan, þá hrun íslensku krónunnar sem hafði veruleg áhrif á skuldastöðu félagsins og í þriðja lagi eru rekstrarvandræði viðskiptavina sem ekki hafa getað staðið í skilum. Verkefnastaðan hjá félaginu hefur þannig hrunið algjörlega,” sagði Óli Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri í samtali við Skessuhorn. Hjá Loftorku störfuðu undir það síðasta tæplega 70 starfsmenn en voru hátt í 300 þegar mest lét árið 2007. “Á síðustu dögum lá það fyrir að viðskiptabanki okkar, sem er Íslandsbanki, sá ekki grundvöll til að halda áfram þessum rekstri í núverandi mynd. Því var starfsmönnum fyrirtækisins tilkynnt í dag að fyrirtækinu yrði lokað og sótt um gjaldþrot og menn munu ekki mæta til vinnu eftir helgi,” sagði Óli Jón.
Samkvæmt heimildum Skessuhorns er vilji fyrir því meðal heimamanna að allt verði gert til að freista þess að endurvekja rekstur Loftorku, enda hefur fyrirtækið verið stærsti rekstraraðilinn í sveitarfélginu. Nú gerist það hins vegar að skiptastjóri verði settur yfir búið. Óli Jón telur að það myndi draga úr tjóninu að lokun yrði sem styst, hvernig svo sem rekstri verður komið af stað aftur. Hann vildi ekkert tjá sig um það á þessari stundu enda flyst forræði fyrirtækisins í hendur skiptastjóra sem ekki er búið að skipa.
Fyrirtækið Loftorka Borgarnesi stendur á gömlum grunni, en það var stofnað árið 1962. Félagið hefur verið alhliða framleiðslu- og verktakafyrirtæki á sviði mannvirkjagerðar og hefur sérhæft sig í framleiðslu á forsteyptum hlutum úr steinsteypu í mannvirki og steinrör í holræsi. “Starfsemin hefur farið fram að Engjaási í Borgarnesi, á Akureyri og á Esjumelum á Kjalarnesi. Félagið hefur verið nátengt Borgarnesi og síðar Borgarbyggð frá stofnun og starfsmenn og eigendur þakka íbúum samferðina, um leið og samstarfsaðilum er þakkað fyrir samskiptin á liðnum árum,” segir í tilkynningu frá félaginu.