29. júní. 2009 07:32
Það var létt yfir þeim Haraldi Benediktssyni bónda á Vestra – Reyni og frænda hans Hjálmari Ingibergssyni í gærmorgun þegar þeir voru við heyskap í blíðviðrinu. Áttu þeir einungis eftir að slá tvö tún í fyrri slætti og voru að rúllubinda af síðustu blettunum þar fyrir utan. “Það hefur verið gríðarlega góð sprettutíð í sumar og maður hefur varla haft við sprettunni að slá þegar þurrkur hefur gefist. Mér heyrist á mönnum sem ég hef verið í sambandi við víðsvegar um landið að heyfengur sé að meðaltali um 20% meiri en í meðalári. Hér sunnan Skarðsheiðar er það jafnvel ívið meira. Margir eru nú langt komnir með fyrri slátt og hafa náð mjög góðum heyum. Það virðist gilda um nær allt land, einna helst að Þingeyingar kvarti yfir kali í túnum,” sagði Haraldur, en hann er jafnframt formaður stjórnar Bændasamtaka Íslands og er vegna þeirrar vinnu sinnar daglega í sambandi við bændur um allt land.
Aðspurður segir Haraldur að talsverðar annir fylgi félagsmálunum hjá BÍ um þessar mundir. Verið sé meðal annars að fara ofan í rekstrarskilyrði einstakra búgreina vegna efnahagsástandsins og sé sú vinna bæði í samstarfi við ráðuneytið og bankastofnanir. Haraldur segir það vissulega jákvætt í þeirri óáran sem ríkir í efnahagsmálunum að horfur séu á góðum heyfeng en slíkt bætir að sjálfsögðu afkomu bænda.